Um 400 ungmenni sóttu fyrstu starfamessu Austurlands – Myndir

Um 400 nemendur úr grunn- og framhaldsskólum á Austurlandi sóttu fyrstu starfamessu Austurlands sem haldin var í íþróttahúsinu á Egilsstöðum í gær. Verkefnastjóri segir ánægju ríkja eftir daginn.

„Ég held það hafi tekist mjög vel til með daginn. Hér voru rúmlega 400 nemendur úr grunn- og framhaldsskólunum. Mér sýndist krakkarnir hafa gaman af, þau voru að spyrja og fræðast,“ segir Páll Baldursson, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Starfamessan er frábrugðin atvinnulífssýningum að því leyti að hún er fyrst og fremst ætluð skólakrökkum til að kynnast þeim störfum sem í boði eru á Austurlandi þannig þau hafi skýrari hugmyndir af því hvaða kostir eru í boði þegar þau huga að framtíðinni.

Um 40 fyrirtæki af Austurlandi kynntu starfsemi sína. „Við vorum hér með 37 borð frá fyrirtækjum og stofnunum. Í þeim var mikil fjölbreytni,allt frá Alcoa Fjarðaáli yfir í einstakling sem starfar sjálfstætt sem kjötiðnaðarmaður.

Síðan voru hér sveitarfélögin, verkfræðistofur, þjónustustofnanir, skólarnir, verktakar, byggingafyrirtæki og fleiri. Þetta sýnir okkur hversu fjölbreytt atvinnulífið á Austurlandi er,“ segir Páll.

Skipulagðar voru rútuferðir frá þéttbýlisstöðum á Austurlandi fyrir nemendur í 9. og 10. bekkjum grunnskólanna og af fyrsta ári í framhaldsskóla. Til að hvetja krakkana til að fara á milli fyrirtækja og forvitnast var settur upp ratleikur.

„Hann virtist lukkast ágætlega til að leiða þau um dagskrána. Þess var krafist að þau færu að ákveðið mörgum borðum til að spyrja og fá upplýsingar. Það skapaði síðan stundum ágætar umræður,“ segir Páll.

Starfamessur hafa verið haldnar víðar í öðrum landshlutum en þetta var sú fyrsta á Austurlandi. Páll segir vilja til að halda áfram. „Það hefur aðeins verið rætt, að vera með þetta á 2-3ja ára fresti. Með að vera með þetta á tveggja ára fresti þá myndi nemandi úr níunda bekk grunnskóla mæta aftur þegar hann væri kominn á fyrsta ár framhaldsskóla, en það gerir ekkert til.“

Starfamessa 2024 0005 Web
Starfamessa 2024 0007 Web
Starfamessa 2024 0008 Web
Starfamessa 2024 0014 Web
Starfamessa 2024 0016 Web
Starfamessa 2024 0030 Web
Starfamessa 2024 0032 Web
Starfamessa 2024 0033 Web
Starfamessa 2024 0039 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.