Uppgröfturinn í Firði einn sá stærsti og ríkulegasti á Íslandi

Fornleifauppgreftri á rústum landnámsbæjarins Fjarðar á Seyðisfirði lauk í september. Að baki er uppgröftur sem er með þeim umfangsmestu í Íslandssögunni, en líka einn sá ríkulegasti. Í jörðinni reyndist vera bæði meira af minjum og eldri en talið var þegar byrjað var að kanna svæðið.

Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur sem stýrði uppgreftrinum frá því hann hófst árið 2021, segir að könnunarskurðir, sem teknir voru sumarið 2020, hafi ekki gefið neinar vísbendingar um að uppgröfturinn yrði jafn stór og raunin var. Í hann var ráðist vegna snjóflóðavarnagarða sem reistir eru undir Bjólfi.

Í lok fyrsta sumarsins kom hópurinn niður á aurskriðu sem virðist hafa fallið á svæðið fyrir árið 1100 og undir henni reyndust mannvistarlög, meðal annars fjögur kuml. Á meðal þess athyglisverðasta sem kom upp úr þeim voru textílleifar, sem lítið hefur fundist af hérlendis. Vonast er eftir niðurstöðum úr greiningum á þeim síðar í vetur.

Í framhaldinu fundust frekari mannvistarlög frá því fyrir árið 1000 og framundir 1100, meðal annars þrír skálar. Frá árinu 2022 hefur verið grafið á því svæði. Byggingarnar hafa sumar reynst býsna heillegar og veita miklar upplýsingar.

„Ég held að þetta sé einn af fyrstu stöðunum hérlendis þar sem náðst hefur að grafa íbúðarhús, útihúsin og kuml frá sama tíma. Það er heldur ekki alltaf sem gefst tækifæri til að grafa upp öll húsin. Við erum með fjögur hús, auk skálans með viðbyggingu, kumlin og svo öskuhauginn,“ segir Ragnheiður og bætir við að talið er að uppgröfturinn sé orðinn einn sá stærsti hérlendis metið út frá rúmmáli.

Ótrúlegt gripasafn


En uppgröfturinn er ekki bara viðamikill hvað varðar umfang eða húsin. Hann er einnig einn sá ríkulegasti hvað varðar fjölda gripa í íslenskum uppgreftri. „Við fengum um 3500 gripi í fyrra, þar af 2600 frá því fyrir árið 1100. Í sumar eru þeir orðnir ríflega 1000. Ég held að við séum alls komin með um 4000 gripi sem hægt er að segja að séu frá tímabilinu 940-1100. Þetta er ótrúlegt gripasafn miðað við að þetta eru bara 160 ár.

Uppgröfturinn hér og á Stöð í Stöðvarfirði skera sig úr hvað varðar fjölda perlna. Á Stöð eru þær orðnar yfir 200. Við erum með 140-150 ef við teljum þær með sem fundust í kumlunum, úr bænum höfum við fengið yfir 100. Ég held að mest hafi áður fundist 48 perlur að Hrísbrú í Mosfellsdal.

Við erum komin með yfir 100 taflmenn. Á öðrum bæjarstæðum hafa fundist 1-2. Við fundum þá fyrstu í bátskumlinu, en síðan hafa þeir verið út um allt í skálunum, hvort sem er við langeldinn eða í vefjarstofunni. Við sjáum líka afskurði af rauðabergi og gjóskubergi, sem segir okkur að íbúar í Firði hafa verið að tálga þessa taflmenn í skálanum.

Við erum með yfir 60 snældusnúða, 200 brýni, ótrúlega mörg brot úr heilu klébergi og brotnu klébergi. Einn af okkar mest spennandi fundum í sumar er silfurpeningur. Hann er það vel varðveittur að eftir greiningu er örugglega hægt segja hvaðan hann kemur.

Síðan fundum við brot úr spjaldi úr spjaldvefnaði, sem ég held að hafi ekki fundist áður á Íslandi frá þessum tíma. Það væri gaman að geta tengt það við vefnaðinn í kvenkumlinu og segja að textíllinn sé héðan. Snældusnúðarnir gefa okkur það til kynna að hér hafi verið ótrúlega mikil framleiðsla á vefnaði.

Við höfum líka fundið marga járngripi. Við fundum þrjú eldstál, ég held að samtals hafi áður fundist 5-6 hérlendis. Við erum líka með 3-4 lykla, stóra hákarlaöngla, lóð og fleiri gripi sem þarf að greina nánar.“

Mikil framleiðsla í Firði


Uppgreftirnir tveir á Austurlandi eru farnir að skera sig frá öðrum landsnámsuppgröftum hvað varðar fjölda gripa sem kann að gefa til kynna að íbúar fjórðungsins hafi verið auðugir. Þeir eru reyndar ekki alveg samanburðarhæfir, eldri skálinn að Stöð er nokkru eldri en þeir í Firði, en yngri skálinn í Stöðvarfirði og skálarnir á Seyðisfirði gætu verið frá svipuðum tíma.

„Ef við horfum bara á efnismenninguna þá er einstakt hvað er mikið af gripum. Ég held að Austfirðingar hafi ekki verið svona hirðulausir, heldur hafi þeir verið ríkir. Það er hægt að benda á að aðferðir við uppgrefti hafi breyst frá því um 1960-70, hér höfum við sigtað og fleytt allan jarðveg þannig að við finnum smæsta smátt. Ég vænti þess líka að öskuhaugurinn eigi eftir að segja okkur miklu meira á næstu árum. Það er einstakt að hafa grafið hann upp. Þar var mikið af gjalli, deiglu, kolum og dýrabeinum.

Það sem ég hef velt fyrir mér í auknu mæli síðustu vikur er þessi mikla framleiðsla. Til dæmis hlýtur textílframleiðslan að hafa verið fyrir fleiri en þau sem bjuggu hér, þótt hér hafi verið margir í heimili.

Að vissu leyti kemur mér á óvart að við höfum ekki fundið neitt eldra, en það er ljóst að eftir 940 fór mikið hér í gang. Og með skriðunni frá 1100 höfum við góðan tímaramma.“

Ragnheiður áætlar að yfir 20 manns hafi búið í Firði, miðað við stærð skálans og gripina sem hafa fundist og vefjarstofuna sem nær yfir 15 fermetra. „Við sjáum að það hafa margir setið þar og unnið.“

Leituðu landnámsmennirnir eftir beitarlandi?


Þótt búið sé að grafa nær allt svæðið er mikil vinna eftir við nánari greiningar á gögnum, hvort sem það eru einstakir gripir, safn gripa og dreifing þeirra um svæðið eða um húsin sem aftur dregur upp mynd af lífinu á Seyðisfirði á landnámsöld. En upplýsingarnar frá Seyðisfirði bæta einnig mörgu við um Íslandssöguna og gefa til kynna samskipti við nágrannaríki.

Heimildir benda flestar í þá átt að Ísland sé numið af Norðmönnum. Þeir fyrstu sem komu til Stöðvarfjarðar eru til dæmis taldir hafa haft tímabundna útstöð og verið að slægjast eftir afurðum af hval, rostungum eða sel. Ragnheiður bendir líka á verðmæti og mikilvægi ullar og þar með sauðfjárræktar á þessum tíma.

„Ég held að útrásin frá Noregi tengist ekki bara af því að menn hafi verið að ná sér í olíu eða annað fyrir skipin. Það þurfti mikla ull. Hún var í öllum klæðum og seglum skipanna. Í eitt segl þurfi ull af um 250 kindum og það tók eina konu þrjú ár að vefa slíkt segl. Samkvæmt Landnámu komu hingað 400 skip, þannig að þetta var engin smá framleiðsla. Í Noregi, Danmörku og Suður-Svíþjóð hafa fundist jarðhýsi sem benda til mjög umfangsmikils vefnaðar, enda var ekki bara siglt til Íslands, heldur einnig bæði í árásir og verslunarferðir til Englands, Írlands, eyjanna þar í kring og svo til suðurs.

Noregur á víkingaöld var fullbyggður og ekkert land eftir beit. Þess vegna finnst mér ekkert ótrúlegt að menn hafi flust hingað til að ná í meira beitiland.

Hér eru líka vísbendingar um fínsmíði og hráefni í hana en fjöldinn allur af deiglu brotum hafa fundist. Það er sérstakt. Ég er þó viss um að hún hefur verið stunduð víðar þótt ekki hafi fundist vísbendingar um hana.

Annað sem er spennandi hér eru leirkerin sem við höfum fundið, þau eru stærsta safn leirkera frá þessum tíma hérlendis. Við höfum gert greiningar á þeim og þau eiga enga samsvörun í skandinavískum víkingaaldarleirkerum. Ég er farin að hallast að því að þau séu frá Orkneyjum eða Hjaltlandseyjum. Efnagreiningar verða gerðar í vetur og þá fáum við svarið við því.

Mikilvægt að miðla upplýsingunum


Eftir að uppgreftrinum lýkur bíður svæðið þess að tekin verði ákvörðun um framtíð þess. Snjóflóðavarnargarðarnir voru færðir lítillega þannig að ekki þarf að hrófla við skálunum. Ragnheiður segist vilja varðveita húsarústirnar þannig að hægt verði að skoða þær, en fá um leið upplýsingar um söguna. Til er fjöldi þrívíddarteikninga af ýmist skálanum eða einstökum gripum. Að auki væri æskilegt að geta sýnt muni úr uppgreftrinum, en nokkrir þeirra hafa í sumar verið á Minjasafni Austurlands. „Ég sé fyrir mér að það verði stór sýning eftir einhver ár.“

Hún kann líka Seyðfirðingum sínar bestu þakkir fyrir móttökurnar. „Við höfum verið með leiðsögn hér frá 2021 og eigum okkar fastagesti sem hafa fylgst með okkur öll árin. Mér hefur fundist vera mikill áhugi og fólk jákvætt.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.