Uppskeruhátíð Seyðfirðinga með veglegra sniði en undanfarin ár
Markaðs- og uppskeruhátíð Seyðfirðinga, Haustroði, hefst formlega á föstudaginn kemur og frá þeim tíma verður ýmislegt forvitnilegt um að vera í bænum allt fram á sunnudag.
Upphaflega var Haustroðinn nokkurra daga hátíð þar sem Seyðfirðingar og þar bæði einstaklingar og fyrirtæki kynntu sitt fyrir gestum og gangandi en hin síðari ár hefur hátíðin að mestu einskorðast við aðeins einn dag sem alltaf hefur verið fyrsti laugardagurinn í október.
Sesselja Hlín Jónasardóttir, einn forsprakka hátíðarinnar, segir það einmitt hafa vilji þeirra sem að koma að gera hátíðina aftur jafn langa og veglega og upphaflega var gert.
„Í gamla daga voru þetta alltaf nokkrir dagar og einhverjir viðburðir og uppákomur víða í bænum á þeim tíma. Verslanir, þjónustufyrirtæki og jafnvel stofnanir höfðu opið og kynntu starfsemi sína. Síðan fór þetta aðeins að dala og svona síðustu þrjár til fjögur ár hefur aðeins verið um einn dag að ræða. Nú ætlum við að reyna að gera þetta veglegra og þar með vonandi freista þess að fleiri nærsveitarmenn komi til okkar í heimsókn yfir þennan tíma.“
Formleg opnun verður á síðdegis á föstudag klukkan 17 og strax á slaginu opna einir fimm viðburðir sem áhugasamir geta kynnt sér og notið. Þar á meðal sérstök örsýning Tækniminjasafnsins um Jósef á hjólinu, sýning Magnúsar Snæþórs Stefánssonar opnar í Herðubreið og þar hefst líka opinn markaður á sama tíma. Kaffi Lára býður afsláttarkjör af mat og drykk og síðast en ekki síst hefst útsending samfélagsútvarps Seyðfirðinga.
Dagskrá laugardags er jafnvel enn veglegri áður en endapunktur verður settur á sunnudag með sérstakri messu og krakkabíói í Herðubreið. Dagskrána í heild sinni má finna hér.