Skip to main content

Útgáfutónleikar sem um leið verða hálfgerð hljóðfærasýning

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. maí 2025 08:03Uppfært 20. maí 2025 16:03

Björn Hafþór Guðmundsson stendur fyrir útgáfutónleikum sólóplötu sinnar í Stöðvarfjarðarkirkju á laugardag. Þar verður meðal annars spilað á heimasmíðuð hljóðfæri. Úrval austfirsks tónlistarfólks kemur fram á tónleikunum.


Björn Hafþór hefur í gegnum tíðina getið sér góðs orðs sem hagyrðingur og skáld en hann er líka mikill tónlistaráhugamaður. Því hefur hann samið nokkur lög í gegnum tíðina, flest fyrir skúffuna. Á síðasta ári réðist hann í að taka lögin upp og útkoman varð hljómplatan „Við skulum ekki hafa hátt“ sem kom út í lok október í fyrra.

Björn Hafþór safnaði fyrir útgáfunni á Karolinafund og lofaði þar útgáfutónleikum. „Það var hægt að velja að fá diskinn fyrir styrkinn en það nota svo fáir orðið diska þannig að einhver stakk upp á að við lofuðum miðum á útgáfutónleika. Ég er þess vegna bundinn af því,“ segir Björn Hafþór.

Fjölbreytt efnisskrá


Á diskinum sjálfum eru 14 lög en sex þeirra verða flutt á tónleikunum. Til viðbótar verða þar lög erlendis frá og eftir aðra sem tengjast Birni Hafþóri. „Við ætlum að frumflytja lag sem Kristján Ingimarsson frá Djúpavogi samdi og tileinkaði mér þegar ég varð sjötugur og kallast „Elska þig Stöðvarfjörður“. Sum lögin af plötunni var erfitt að flytja á tónleikum og þess vegna fórum við þá leið að hafa þá fjölbreytta.

Kristján er meðal þeirra sem spila á tónleikunum en af öðrum má nefna Jón Kr. Arnarson, Stefán Bragason, Daníel Arason, Garðar Harðarson, Guðmundur Arnþór Hreinsson og Drífu Sigurðardóttur auk Svavars Sigurðssonar, stofnanda Hammond-hátíðar á Djúpavogi. Þá verða söngvarar á borð við Guðmund R. Gíslason, Lísu Leifsdóttur, Heiðbjört Stefánsdóttur, Maríu Bóel Guðmundsdóttur, Svanhvíti Aradóttur og Hlíf Bryndísi og Ástu Maríu Herbjörnsdætur.

Björn Hafþór syngur eitt lag á plötunni en það verður ekki flutt á tónleikunum. Hann mun hins vegar spila á bassa og gítar og kveðst sérstaklega hlakka til að spila loks með hljómsveitinni „The Hafthors“ sem þeir Hafþórs Snjólfur Helgason og Hafþór Valur Guðjónsson mynda hryggjarstykkið í. „Ég kom að því að stofna sveitina og tel mig eiga hugmyndina að nafninu en hef aldrei fengið að spila með þeim fyrr en nú. Á laugardaginn rætist sá draumur.“

Styrkir til fornleifauppgraftarins


Bæði Björn og fleiri stefna á að spila á hljóðfæri sem að hluta eða í heild eru heimasmíðuð. „Ég á bassa sem Hlynur Halldórsson á Miðhúsum hjálpaði mér með. Bassinn heitir Hlynur – eftir smiðnum og viðnum sem í honum er. Jón Kr. mætir með mandólín sem hann smíðaði og Hafþór Snjólfur með trommur sem hann gerði upp. Þetta verður því hálfgerð hljóðfærasýning í leiðinni.“

Björn Hafþór segist hafa fengið ágæt viðbrögð við plötunni. „Ég hef fengið viðbrögð úr ýmsum áttum og fólkið sem ég leitaði aðstoðar hjá var afskaplega viljugt og jákvætt. Laugardagurinn leggst því þokkalega í mig.“

Á tónleikunum verða kaffiveitingar til sölu. Ágóði af sölu þeirra rennur til fornleifauppgraftarins að Stöð í Stöðvarfirði. Byrjað verður að grafa þar tíunda árið í röð í lok maí.