Útisýningin Störf kvenna á Seyðisfirði vekur athygli

Í júnímánuði opnuðu einar þrjár sýningar, á Egilsstöðum og Seyðisfirði, þar sem varpað er ljósi á sögu austfirskra kvenna. Sýningin í Seyðisfirði er utandyra og hefur vakið verðskuldaða athygli.

Auk tveggja sýninga um líf og störf kvenna austanlands í Safnahúsinu á Egilsstöðum sem að standa Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga er sú þriðja staðsett á Lónsleirunni á Seyðisfirði aðeins steinsnar frá upplýsingamiðstöð ferðamanna en að henni stendur Tækniminjasafn Austurlands. Sú sýning er tileinkuð störfum kvenna á Seyðisfirði um 40 ára umbreytinarskeiði frá 1880 til 1920.

Sökum staðsetningarinnar á Lónsleiru fer sýningin ekki framhjá mörgum þeirra þúsunda gesta sem heimsækja fjörðinn hvort sem er akandi eða með skemmtiferðaskipum og þar eingöngu farþegar af skemmtiferðaskipi þegar Austurfrétt átti leið hjá fyrir skömmu. Tveir hinna erlendu gesta höfðu á orði hve gaman væri að fá örlitla innsýn í lífið í bænum fyrir svo löngu síðan en sýningin er bæði á íslensku og ensku.

Tímabilið sem sýningin dekkar var mikill umbrotatími fyrir konur enda var á þessu tímabili aldalöng þjóðfélagsskipan að breytast mikið. Fólk flutti úr sveitunum í þéttbýlin en þar með ekki sagt að atvinnumöguleikar kvenna hafi batnað ýkja mikið þó þær hafi fengið töluverð réttindi á við karla til náms, embætta og yfirráða yfir eigin fjármunum.

Fram kemur á sýningunni til dæmis að helmingur vinnandi kvenna á Seyðisfirði árið 1910 hafi unnið við húshjálp, fjórðungur í landbúnaði og fimmtungur við fiskvinnslu. Tölurnar segja þó bara hálfa sögu því atvinnuþátttaka giftra kvenna á þessum tíma var ekki ávallt skráð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.