Vegleg þjóðhátíðardagskrá alls staðar á Austurlandi

Þjóðhátíðardagurinn 2024 fer fram á mánudaginn kemur um land allt og hafa aðilar austanlands ekki látið sitt eftir liggja til að gera daginn bæði skemmti- og eftirminnilegan fyrir gesti og gangandi. Dagurinn merkilegri en ella sökum 80 ára lýðveldisafmælis landsins.

Múlaþing

Hátíðardagskrá verður í boði í öllum byggðakjörnum Múlaþings:

Á Egilsstöðum hefst blöðrusala í Hettunni klukkan 10 áður en fjölskyldustund verður haldin í Egilsstaðakirkju. Á slaginu 11 hefst skrúðganga frá kirkjunni í Tjarnargarðinn þar sem boðið verður upp á tónlistaratriði og fimleikasýningu auk sérstakra viðburða fyrir yngri kynslóðina. Þar hefst jafnframt formleg hátíðardagskrá klukkan 13. Opið hús verður í Safnahúsi á meðan öllu stendur.

Dagskráin á Seyðisfirði hefst á að lagður verður blómsveigur á leiði Björns á Firði klukkan 11 en 12.30 hefst svo 17. júní hlaup Hugins fyrir tólf ára og yngri. Formlegi hlutinn hefst svo 13 með hátíðarmessu og ávarpi, tónlistarflutningi og þar einnig babúbílar og sápubraut fyrir alla sem ungir eru í anda. Klukkan 15 mun Tækniminjasafnið opna sýningu sína Konur starfa í útigalleríinu við Lónsleiru. Frítt verður inn á safnið.

Dagurinn á Djúpavogi hefst á þjóðlegri morgunstund í Löngubúð klukkan 11 þar sem allir eru hvattir til að mæta í þjóðbúningum. Tveimur stundum síðar hefst hátíðarguðsþjónusta í Djúpavogskirkju og í kjölfar hennar skrúðganga að íþróttasvæði Neistans. Þar fer hin formlega dagskrá fram frá klukkan 14.30.

Borgfirðingar tvínóna ekkert við hlutina því þar hefst allt strax með skrúðgöngu frá Heiðinni og upp að íþróttavellinum klukkan 13 þar sem hátíðardagskráin fer fram auk þess sem eitt og annað sprell verður aukreitis. Í kjölfar þess verður kaffihlaðborð í Fjarðarborg.

Fjarðabyggð

Í Fjarðabyggð er hefð fyrir að skipta formlegri dagskrá dagsins á milli byggðakjarna ár frá ári í samvinnu við íþróttahreyfinguna í sveitarfélaginu. Að þessu sinni er deginum fagnað á Stöðvarfirði við Salthúsmarkaðinn. Allt hefst 12.20 með afhjúpun og vígslu upplýsingaskilta við kirkjugarðinn og um fornleifauppgröftinn við Stöð en meiri formlegheit hefjast klukkan 13. Annars vegar með ávarpi forseta bæjarstjórnar en hins vegar ávarpi Fjallkonunnar. Við taka svo bæði tónlistaratriði og uppákomur fyrir þá sem yngri eru auk þess sem boðið er upp á köku í tilefni af áttræðisafmæli lýðveldisins. Einnig verður á svæðinu glæný slökkvibifreið Slökkviliðs Fjarðabyggðar sem gestir geta skoðað. Deginum lýkur með 17. júní kaffi á vegum Félags eldri borgara en það fer fram í Grunnskólanum.

Vopnafjörður

Eins og áratugum saman er það á höndum Ungmennafélagsins Einherja á Vopnafirði að sjá um hátíðarhöld í tilefni 17. júní. Nú fer dagskrá fram bæði á fótboltavelli bæjarbúa og í kjölfarið hátíðarkaffisamsæti í Miklagarði þar sem Fjallkonan fer með ljóð og ræðu.

Hefst gamanið klukkan 13 á fótboltavellinum og þar má sjá hesta Glófaxa leika listir sínar auk þess sem boðið er upp á ýmsa skemmtidagskrá fyrir unga fólkið áður en farin verður ganga niður í Miklagarð þar sem hátíðardagskráin hefst klukkan 15.

Bókargjöf til allra

Það sem gerir daginn sérstakari en endranær er að Forsætisráðuneytið í samvinnu við bókaútgáfuna Forlagið hyggst færa landsmönnum öllum eintak af bókinni Fjallkonan - Þú ert móðir vor kær. Fjallkonan er mikið þjóðartákn og í bókinni er farið gaumgæfilega ofan í sögu hennar og tilurð og ávörp Fjallkonunnar á Austurvelli gegnum tíðina. Bókina er hægt að nálgast á bókasöfnum, í sundlaugum eða á skrifstofur sveitarstjórnanna og fæst gefins líka í enskri og pólskri þýðingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.