Vel tekið á móti nýjum íbúum í Fjarðabyggð
Nýir íbúar á góðum stað er heiti þróunarverkefnis um móttöku nýbúa í Fjarðabyggð og hefur það verið í gangi frá síðasta hausti. Vonir standa til að hægt verði að koma því á legg í öðrum sveitarfélögum Austurlands á árinu.
Sigríður Herdís Pálsdóttir er verkefnisstjóri deilda Rauða kross Íslands í Fjarðabyggð og sér jafnframt um þróunarverkefnið, sem hófst í febrúar í fyrra og á að standa út árið.
,,Mitt starf er að aðstoða nýja íbúa Fjarðabyggðar,“ segir Sigríður, sem sjálf er nýbúi og flutti frá Grundarfirði til Eskifjarðar síðasta sumar. ,,Ég hef gengið í hús og fært nýjum íbúum lykil að Fjarðabyggð. Á þeim lykli er árskort á bókasafn, dagur í Oddsskarði, aðgangur að Stríðsminjasafni, Safnahúsinu og Sjónminjasafni og tveir sundmiðar. Það er mjög gaman að banka upp á, hvort sem er hjá Íslendingum eða útlendingum. Ég fæ alls staðar góðar móttökur og fólk er fegið að fá upplýsingar. Ég afhendi fólki jafnframt bækling sem hefur verið þýddur á nokkur tungumál og gefur góðar leiðbeiningar um hvaðeina í Fjarðabyggð.“
Sigríður er að útbúa handbók fyrir leik-, grunn- og tónlistarskóla sveitarfélagsins um hvernig taka beri á móti nýjum nemendum, íslenskum og erlendum og hvað þurfi að laga í þeim efnum. Hugmynd er um að fá nemendur og fjölskyldur þeirra til að taka að sér nýja nemendur og styðja þá. Sigríður og Helga Steinsson hjá Fjölmenningarsetri eru í samstarfi um að bjóða nýbúum á kynningarfundi í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins.
Nýir íbúar á góðum stað er þróunarverkefni með ákveðna fjárveitingu frá sveitarfélaginu og Vaxtarsamningi Austurlands og ekki liggur nákvæmlega fyrir hvert framhald þess verður eftir þetta ár. Í fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar, sem nú er í vinnslu, er þó gert ráð fyrir að tryggt verði að verkefnið haldi áfram. Væntingar eru til að verkefnið fari af stað í öllum sveitarfélögum fjórðungsins og verði í síðasta lagi yfirfært í kjölfar áfangaskýrslu, sem leggja á fyrir aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi næsta haust.
Frá 1. ágúst til 31. desember í fyrra fluttu 246 í Fjarðabyggð. Af þeim eru 153 með íslenskt ríkisfang og 93 með erlent, þar af 70 pólskt. Frá 2. desember síðastliðnum og fram á þennan dag hafa 48 einstaklingar flutt í sveitarfélagið, en 58 flutt í burtu. Þar af eru 26 erlendir íbúar og 17 sem fluttu 1. ágúst og eru nú að fara aftur. Frá 1. janúar til 2. febrúar fluttu 26 til Fjarðabyggðar og voru það allt Íslendingar. Flestir flytja á Reyðarfjörð og í Neskaupstað.