Vel yfir fimm þúsund manns sótt sýningar Skaftfells á árinu

Enn eitt árið fagnar myndlistarmiðstöðin Skaftfell á Seyðisfirði stórkostlegri aðsókn en vel yfir fimm þúsund einstaklingar sóttu þær átta sýningar sem fram fóru í aðalsýningarsal miðstöðvarinnar þetta árið.

Svo skrifar Celia Harrison, forstöðumaður miðstöðvarinnar, í jólakveðju sinni þar sem hún færir öllum aðstandendum sem og gestum góðar hjartans kveðjur meðan hún rifjar upp sýningarhaldið árið 2024.

Þó sýningar í aðalsal Skaftfells hafi trekkt þennan mikla fjölda gesta er heildarfjöldinn enn meiri sem rýnt hefur verk á sýningum Skaftfells enda fara einnig fram sýningar á neðri hæð hússins í Skaftfell Bistró en þar voru haldnar einar sex sýningar að auki.

Þá tók Skaftfell á móti 25 gestalistamönnum í vinnustofudvöl á árinu sem er að líða, fræðslustarfssemi miðstöðvarinnar aldrei verið viðameiri og námskeið haldin í skólum Austuralands auk móttöku listafólks frá Listaháskóla Íslands um tveggja vikna skeið. Þá var og flott aðsókn að Miðsumarsgötuhátíð Skaftfells.

Komandi ár lofar einnig góðu að sögn Celiu:

Nú þegar árið 2025 nálgast hlökkum við til að bjóða ykkur velkomin til kröftugs sýningarstarfs okkar, þar á meðal samsýningar sem mun opna List í ljósi hátíðarina í febrúar, vorsýningu Ra Tack og Julie Lænkholm, og sumarsýningu á verkum Jóhannesar Kjarval í samstarfi við Listasafn Íslands. Alþjóðlega gestavinnustofan okkar dafnar á næsta ári og með stuðningi Nordic Culture Point tekur Skaftfell á móti fjórum listamönnum um haustið, auk þess sem boðið verður upp á prentlistamannadvöl í samstarfi við Prentverk Seyðisfjörður í árslok.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.