Veltir fyrir sér ókunnugu fólki

Ljósmyndarinn Dagný Steindórsdóttir opnaði nýverið sína aðra einkasýningu á Vopnafirði þar sem hún veltir fyrir sér lífi ókunnugs fólks sem á vegi hennar verður á stöðum þar sem hún er í raun sú ókunnuga.

„Þetta eru allt myndir sem eru teknar erlendis. Ef ég tæki myndir af Íslendingum þá kæmi einhver sem þekkti Jón frænda – og þá er sá ekkert ókunnugur lengur,“ segir Dagný um sýninguna.

Dagný hélt sína fyrstu einkasýningu sumarið 2019 þegar hún sýndi myndir úr vopnfirsku landslagi á Bustarfelli. Hún segist ekki hafa viljað endurtaka sig á næstu sýningu og því verið búin að leita að innblæstri áður en hún datt niður á þessa hugmynd á ferðalagi í Aþenu í Grikklandi í fyrrasumar.

„Þegar maður er ókunnugur á staðnum þá horfir maður á hann út frá sínu sjónarhorni þar sem allt er nýtt og framandi. Staðurinn er hins vegar heimili þessa fólks. Ég hef gaman af að reyna að setja mig í spor þessa fólks, hvernig því líður, hvað það er að gera og vil gjarnan að annað fólk geri það líka,“ útskýrir hún.

„Við veitum þessu fólki oft ekki mikla athygli og ég spái ekki endilega í þessu þegar ég tek myndina heldur þegar ég skoða hana síðar. Ég er til dæmis með mynd af tveimur mönnum úr Búdapest að koma út úr búð. Þegar ég tók myndina fram til að vinna hana fór ég að hugsa um hvort þeir væru enn á lífi. Ég hefði aldrei hugsað til þeirra aftur ef ég hefði ekki náð myndinni.“

Dagný kveðst leitast við að ná myndum af fólki án þess að það viti að verið sé að mynda það. „Fólk verður oft óeðlilegt og vandræðalegt þegar því er stillt upp en er afslappaðra þegar það veit ekki af ljósmyndaranum.“

Átján myndir eru á sýningunni sem stendur út ágúst á Uss Bistro í Kaupvangi á Vopnafirði.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.