Verktakar gætu átt möguleika erlendis

Verkefnastaða jarðvinnuverktaka á Fljótsdalshéraði er þokkaleg fyrir komandi vor og sumar. Austfirskir verktakar gætu mögulega leitað eftir verkefnum fyrir stóra erlenda aðila eins og Bechtel á erlendri grund.

13_29_29---tracked-digger-bucket-working-in-a-river_web.jpg

Verkefnastaðan sæmileg fyrir sumarið hjá jarðvinnuverktökum á Héraði

Héraðsverk er með þrjú stór vegagerðarverkefni fyrir sumarið, Myllan heldur áfram verkefnum við Fjarðarárvirkjun og Ylur verður í vegagerð í Hjaltastaðarþinghá. Þessum verkefnum á að ljúka í ár.

Unnar Elísson, eigandi Myllunnar, sagði á atvinnumálaþingi á Egilsstöðum nýlega, að verktakar á Héraði þyrftu líklega að ráða á bilinu 100 til 140 manns til viðbótar þeim mannskap sem fyrir er í verkefni ársins. Ný útboð Vegagerðar í ár séu á Vopnafjarðarheiði, tenging frá Hólaskarðsvegi á Raufarhöfn og vegagerð í Skriðdal. Þeim hafi verið fresta í fyrra vegna kreppunnar, margir hafi boðið í  en ekki ljóst hver hreppi verkefnin. ,,Hinn mikli samdráttur í framkvæmdum á landsvísu, hátt vaxtastig, há verðbólga og vantrú annarra þjóða á íslensku krónunni er ekki til að auka bjartsýni,“ sagði Unnar í erindi sínu.

  Út fyrir landsteina  

Unnar sagði austfirska verktaka þurfa að hagræða í rekstri og sníða fyrirtækjunum stakk eftir vexti. Mikilvægt sé að sækja vinnuna um allt land eins og gert hafi verið á síðustu árum. Hann sagði að sóknarfæri fyrir austfirska verktaka gætu falist í að sækja eftir verkum hjá þeim erlendu stórfyrirtækjum sem starfað hafa að til dæmis álversbyggingunni og jarðgangagerð á Austurlandi. Nefndi  hann þar meðal annars Bechtel til sögunnar. ,,Kostnaður við vélaflutninga frá Egilsstöðum þvert yfir landið er sáralítið ódýrari en að fara með vélakostinn í ferjuna á Seyðisfirði og flytja hann yfir á meginlandið eða Skandinavíu til verkefna. Markaðurinn erlendis er sjálfsagt ekkert þrengri en hér á Íslandi,“ sagði Unnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.