
„Við höfum metnað fyrir að glæða Vopnafjörð lífi“
Gamla sláturhúsið á Vopnafirði fær nýtt hlutverk sem nýtingarmiðstöð fyrir matvælaframleiðslu og hliðarafurðir úr sjó og landi. Verkefnastjórinn, Rögnvaldur Þorgrímsson, leggur áherslu á nýsköpun og efnahagslega uppbyggingu í bænum.Nýtingarmiðstöð rís í gamla sláturhúsinu
Sláturhúsinu á Vopnafirði var lokað í mars, en nú fær byggingin nýtt hlutverk sem miðstöð fyrir matvælavinnslu og nýsköpun. Þar munu bændur, veiðimenn og frumkvöðlar fá aðstöðu til að vinna afurðir sínar í vottaðri vinnsluaðstöðu.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Vopnafjarðarhrepp, BRIM, Austurbrú og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Rögnvaldur Þorgrímsson, nýráðinn verkefnastjóri miðstöðvarinnar, sér fyrir sér samfélagslegt verkefni sem mun ekki aðeins hafa áhrif á Vopnafjörð heldur allt Austurland.
„Við viljum skapa vettvang þar sem fólk getur komið með sínar hugmyndir og látið þær verða að veruleika. Hvort sem það er framleiðsla á kryddjurtum, bláberjasultu eða vinnsla sjávarþörunga, þá viljum við tryggja að allir fái tækifæri til að prófa sig áfram,“ segir Rögnvaldur.
Matvælaframleiðsla og nýsköpun í forgrunni
Miðstöðin verður ekki aðeins vettvangur fyrir hefðbundna vinnslu, heldur einnig fyrir nýsköpun. Þar verður aðstaða til að vinna með bæði fisk og kjöt, og stefnt er á að útvega vélar fyrir reykingu, frystingu og pökkun afurða.
Rögnvaldur leggur áherslu á að þetta skref sé mikilvægt fyrir byggðina. „Þetta skapar störf og eykur atvinnutækifæri í bænum. Það getur orðið mikil lyftistöng fyrir samfélagið að hafa slíka aðstöðu,“ útskýrir hann.
Frá Reykjavík til Vopnafjarðar
Rögnvaldur er fæddur og uppalinn í Reykjavík en flutti til Vopnafjarðar í byrjun síðasta árs með fjölskyldu sinni. Hann tók þátt í matreiðslukeppnum í sjónvarpi sem ungur maður og er þetkktur fyrir fiskrétti sína.
„Pabbi minn vann alltaf við fisk, og það var bara það eina sem ég kunni. Með tímanum fór ég að sjá möguleikana í því að gera betur í matreiðslu og nýtingu afurða. Þetta verkefni passar því fullkomlega við mínar ástríður,“ segir hann.
Fyrsta skref verkefnisins verður að koma miðstöðinni í rekstur, og í framhaldinu verður fjárfest í búnaði til matvælavinnslu. Áætlað er að fyrstu vélar verði komnar á staðinn í sumar 2025.
Að byggja upp framtíðina á Vopnafirði
Vopnafjörður, eins og mörg önnur byggðarlög á Austurlandi, glímir við að ungt fólk flytur í burtu í leit að fleiri tækifærum. Rögnvaldur segir mikilvægt að snúa þeirri þróun við.
„Við þurfum að skapa tækifæri fyrir ungt fólk. Það skortir störf sem geta laðað fólk aftur heim eftir nám. Með nýtingarmiðstöðinni vonumst við til að breyta því og færa meiri virkni í bæinn,“ segir hann.
Þrátt fyrir að verkefnið sé enn á byrjunarstigi, er bjartsýni ríkjandi. „Við vitum að þetta mun taka tíma, en allir sem koma að þessu hafa trú á verkefninu. Við höfum metnað fyrir að glæða Vopnafjörð lífi,“ segir Rögnvaldur að lokum.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.