Vísir kominn að klettaklifurparadís á Seyðisfirði

Fyrir rúmum tveimur árum fundust engar uppsettar klifurleiðir í hömrunum fyrir ofan Seyðisfjörð. Þær nú orðnar yfir þrjátíu talsins og stefnt að tuttugu til viðbótar á næstu vikunum.

Þetta hefur gerst fyrir framtak þeirra Ásrúnar Mjallar Stefánsdóttur og Jafets Bjarkar Björnssonar sem lengi hafa verið áhugasöm um klettaklifur og hóf Jafet handa, ásamt öðrum félögum sínum, að útbúa fyrstu leiðirnar eftir að hann flutti í bæinn fyrir rúmum tveimur árum.

Hann segir að vel megi merkja aukinn áhuga heimamanna sjálfra á þessu sporti enda óvíða jafn mikið af klettum og hömrum með miklu útsýni en einmitt á Seyðisfirði.

„Sannarlega hef ég orðið var við það og kannski ágætt dæmi um hve vel hefur tekist til er að bara síðast í gær þá fór á einn klifurstaðinn hér fyrir ofan og þá voru þar fjórir einstaklingar úr bænum að prófa sig. Ég myndi segja að heilt yfir séu merkilega margir hér úr bænum að taka þátt miðað við íbúafjöldann hér.“

Meginástæða þess að kapp er lagt á að fjölga klifurleiðum enn frekar er sérstök klifurhátíð sem parið hefur verið að vinna að frá því í fyrra en verkefnið fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands síðasta vetur.  Sú verður haldin í næsta mánuði og með henni vonast Jafet til að koma Seyðisfirði fyrir alvöru á kort klifrara sem klifurparadísar.

„Undirbúningur gengur vel og dagskráin að verða tilbúin. Við erum að miða við aðra helgina í júlí en það gæti þó aðeins breyst eftir veðri og vindum. En það eru allmargir að sýna þessu áhuga þó þetta hafi ekki verið ýkja mikið kynnt enn sem komið er.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.