Vélar Kárahnjúkavirkjunar munu skila 13% meiri raforku en uppsett afl hennar gerði ráð fyrir
Kárahnjúkavirkjun mun eftir áramót geta skilað allt að 780MW afls, eða um 90MW meiru en hún var byggð til að afkasta. Fyrir nokkru kom í ljós að vatnshjól í sex hverflum virkjunarinnar eru of stór og veldur það m.a. flökti í rafmagnsframleiðslunni. Verið er að minnka vatnshjólin og nú eru þrjár vélanna tilbúnar og búið að prófa þá fyrstu af þeim.Nýta hefur þurft sjöttu vélina, sem hugsuð var sem varavél, að einhverju leyti til að skila þeirri orku sem samið var um til álvers Alcoa Fjarðaáls. Undanfarið hefur verið unnið nótt og dag við að sverfa af vatnshjólunum í túrbínunum til að minnka þau og eru þrjár vélanna tilbúnar og búið að prófa þá fyrstu af þeim. Taka átti fjórar í gegn fyrir áramót, en sýnt þykir að takast muni að ljúka vinnu við fimm. Sjötta vélin verður svo kláruð snemma árs 2009. Menn á vegum framleiðandans, Va-Tech Escher Wyss frá Þýskalandi og Austurríki, eru við verkið. Einnig er unnið að endurbótum á frávatnslokubúnaði vélanna. Starfsmenn í Fljótsdalsstöð ástandsskoða vélarnar jafnóðum og viðgerðum er lokið.
Eftir að endurbætt vél var prófuð kom í ljós að hún getur nú skilað um og yfir 130 MW. Uppsett afl hverrar vélar var áður 115 MW og virkjunarinnar í heild því 690 MW. Nemur þessi óvænta aukning á afli virkjunarinnar því rúmlega 90 MW alls. Ekki er ólíklegt að álverið í Reyðarfirði fari fram á meiri raforku í framhaldinu, fyrst mögulegt er að auka framleiðslu virkjunarinnar sem þessu nemur.