Vonast til að geta keyrt íbúðarhúsið á sólarorkunni einni helming ársins

Um miðjan nóvember var sólarsellukerfið á þaki húss Jeffs Clemmensens og Þórdísar Sigurðardóttur í Neskaupstað fullklárað, þegar það var tengt við dreifikerfi Rarik. Með því veit búnaðurinn í húsinu hvenær best er að bæta á sig orku úr landsnetinu en hann getur líka flutt út á það þegar allir geymar hússins eru orðnir fullir. Sól þarf þó að hækka á lofti áður en það gerist.

Byrjað var að setja upp kerfið um verslunarmannahelgina þegar starfsmenn danska fyrirtækisins AllGreen komu með búnaðinn til landsins. Því var síðan fulllokið þann 19. nóvember þegar búnaðurinn í húsinu var tengdur við dreifikerfi Rarik. Sellurnar geta framleitt allt að 16 KW af orku sem gera þær að stærsta sólarorkufleti á íslensku íbúðarhúsi og að einu stærsta sólarorkuveri landsins.

En þær eru bara hluti búnaðarins. Innanhúss eru rafgeymar sem geta geymt allt að 32 KWst., sem er á við helmingurinn af geymslugetu rafbíls. Þar er líka stjórnstöðin fyrir orkuframleiðsluna og ekki síður orkuviðskipti heimilisins.

Takmörkuð framleiðsla í svartasta skammdeginu


Það að búnaðurinn hafi orðið virkur nú í svartasta skammdeginu þýðir að framleiðslugetan er enn takmörkuð. Þegar Jeff tók á móti Austurglugganum þann 20. desember síðastliðinn sagði hann að kerfið gerði ekki meira en að „vakna“ í klukkustund á dag og framleiðslan væri engin. Áður hafði orkan ekki dugað í meira en einn kaffibolla.

Til að búnaðurinn framleiði rafmagn þarf sólarljósið að skína beint á sólarsellurnar. Það stendur til bóta og Jeff vonast til að geta haldið alvöru sólarkaffi síðar á næstu dögum. „Það verður sólarvertíð – og vonandi líka loðnuvertíð,“ segir hann.

Hann vonast til að framleiðslan verði í framtíðinni það mikil að í 4-6 mánuði á ári þurfi hann ekki að kaupa rafmagn. Hugbúnaðurinn í kerfinu getur aftengt það og keyrt utan dreifikerfis svo vikum skiptir. „Það skiptir öllu máli hverju það skilar yfir árið. Það verða tímabil þar sem ég framleiði meira en ég þarf að nota,“ segir hann.

Þá stýrir búnaðurinn einnig raforkukaupum kerfisins þannig að hann kaupir raforku þegar hún er ódýrust, hleður henni þá inn á rafgeymana til notkunar þegar hún er dýrust. Eins getur búnaðurinn haldið hita og ljósum á húsinu í 12 tíma þótt bærinn allur sé rafmagnslaus.

Uppfæra þarf íslenskar reglur


Bæði Jeff og Heimir Snær Gylfason, rafeindavirki hjá MultiTask í Neskaupstað sem aðstoðaði við uppsetningu kerfisins, segja að herða þurfi öryggiskröfurnar fyrir sólarorkukerfi hérlendis verulega. Að mestu var fylgt dönskum reglum, sem Jeff segir vera þær ströngustu í Evrópu en einnig var farið eftir íslenskum reglum þegar þær síðarnefndu gengu lengra.

„Þarna er mikið afl á ferðinni. Sólarsellurnar eru vanalega á 400-800V en fara niður í 240 og upp í 1000. Þetta er orðið það mikið afl að hætta getur skapast á ljósboga. Þess vegna eru sérstök ljósbogabox sett utan um allar tengingar þannig að nær engin hætta sé á að slíkir bogar myndist. Ég hef ekki séð þetta hjá öðrum sem sett hafa upp sólarsellur hérlendis,“ segir Heimir.

„Iðnaðurinn á Íslandi er ekki kominn með þekkingu á verkefnum af þessari stærðargráðu. Hann hefur öðlast þekkingu á kerfum í húsbílum sem eru 12V og fært hana upp í stærri kerfi, til dæmis fyrir bændur til sveita. Við erum enn 10-15 árum á eftir öðrum þjóðum því okkur hefur ekki dottið til hugar að svona gæti gengið hérlendis,“ segir Heimir.

Gefur rafmagnið til að aðrir geti selt það


Jeff bendir á að í Evrópu séu það ekki bara opinber yfirvöld sem geri kröfur heldur líka markaðurinn í gegnum tryggingafélögin. Þar sé komið inn í skilmála þeirra að búnaður sem ekki er löggiltur ógildi brunatryggingu ef eldur kemur upp. Slík ákvæði séu ekki enn komin hérlendis en hann telur það vera tímaspursmál hvenær svo verði.

„Ég hef séð íslensk sólarsellukerfi þar sem fúskað hefur verið við uppsetninguna og það getur valdið íkveikjum og slysum, jafnvel kostað mannslíf. Hvernig er staðan með þann fjölda sumarbústaða þar sem sólarsellur hafa verið settar upp, jafnvel þar sem notast er við gömul batterí? Hérlendis eru enn engar hömlur á hvaða búnaður er fluttur til landsins sem þýðir að það má selja hvað sem er,“ segir Jeff.

Að sama skapi er í dönsku reglunum farið fram á að hægt sé að aftengja kerfið utan frá húsinu. Það skiptir máli ef eldur kemur upp, til að fyrirbyggja mikla hættu fyrir slökkviliðsmenn, en slökkvilið Fjarðabyggðar er á meðal þeirra sem fengið hafa kynningu á búnaðinum í húsinu við Starmýri.

Íslensku reglurnar eru ekki bara takmarkaðar í öryggismálunum. Engar reglur eru enn um sölu raforku frá einstaklingum inn á dreifikerfið, eins og mögulegt er orðið frá húsi Jeffs og Þórdísar. Slíkt er vel þekkt erlendis en húsið við Starmýri er hið fyrsta hérlendis sem tengist dreifikerfinu með þessum hætti. Jeff gerir grín að þessu, segist gefa rafmagnið þannig að aðrir geti selt það.

Gestkvæmt hefur verið hjá Jeff síðustu mánuði enda margir áhugasamir um sólarorkuna, bæði einstakir húseigendur, stjórnendur fyrirtækja og jafnvel þingmaður. „Þetta er mitt áhugamál og ég vil hjálpa áhugasömu fólki,“ segir hann.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.