Vopnaðir verðir fylgdu fyrsta hótelgestinum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. feb 2025 17:19 • Uppfært 14. feb 2025 17:22
Hjónin Benedikt Hrafnkelsson og Helga Jónsdóttir, að Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð, segja suma nágranna sína hafa talið þau kexrugluð þegar þau ákváðu árið 1992 að byggja upp lítið sveitahótel á jörðinni. Reksturinn hefur samt yfirleitt komið út í plús. Þau ákváðu eftir síðasta sumar að láta staðar numið og ungir ættingjar þeirra eru að taka við.
Fram til ársins 1990 höfðu hjónin sýslað eitt og annað. Benedikt var lengi bifreiðastjóri en hafði líka opnað steypustöð og framleiddi þar meðal annars hellur.
Það gerðist svo eitt sumarið að Helga tók að sér rekstur gistiþjónustu í Brúarásskóla, en það var um svipað leyti og Ferðaskrifstofa bænda hóf að bjóða ferðamönnum skipulagðar rútuferðir í kringum landið þar sem gjarnan var gist í skólahúsum sem jafnan stóðu auð yfir sumrin.
„Það varð svona dálítill vendipunktur því það leið ekki á löngu áður en ég gerði mér grein fyrir að þessi gistiþjónusta Helgu var að skila töluvert meiri tekjum í búið en ég við að bardúsa í hinu og þessu,“ segir Benedikt.
„Þar áttuðum við okkur á að gistiþjónusta gæti hugsanlega gengið upp jafnvel þó við séum aðeins utan við alfaraleið. Svo þar kviknaði sú hugmynd að setja upp okkar eigin gististað og ekki kannski síst vegna þess að aðstaðan á Brúarási var ekki frábær, enda ekki gististaður í þeirri merkingu fyrir utan að til stóð að loka alveg á slíka gistiþjónustu í skólahúsnæði í eigu ríkisins. Þetta uppátæki vakti athygli strax og ég man eftir nokkrum sem kölluðu okkur „alveg kexrugluð“ að láta okkur detta þetta til hugar.“
Starfsmannabúðir grunnurinn
Uppbyggingin tók tíma en hótelið sjálft opnaði ekki fyrr en árið 1996. Grunnurinn að því voru starfsmannabúðir sem reistar voru vegna framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll og seldar að því verki loknu.
Aðstaðan var líka takmörkuð, engin brú var á ánni milli hótelsins og þjóðvegarins en sumum gestum þótt það bara ævintýri. „Fljótlega eftir að við opnuðum kom í ljós að erlendu ferðamönnunum þótti æði sérstakt og spennandi að aka yfir ána á vaðinu. Þeir voru ekki vanir því að fara yfir ár sísona og þetta vakti ákveðna lukku. Margir óku yfir bara til að láta taka myndir af sér.“
Fyrsti gesturinn eftirminnilegur
Hjónin vilja ógjarnan nefna nöfn en báðum er minnisstætt þegar allra fyrsti gestur hótelsins kom þar til dvalar. „Þar reyndist vera um mikilvægan starfsmann sendiráðs í Reykjavík að ræða og sá var það mikilvægur að honum fylgdu vopnaðir verðir sem vel fylgdust með öllu.
Svo vildi til að á meðan hann dvaldi hér þá var ein helsta gæsaskyttan á svæðinu á vappi hér í kring og auðvitað vopnaður líka og verðir gestsins urðu hans varir skammt frá hótelinu. Ég vil ekki fara í smáatriðin en það varð smá hasar í kringum þetta þó allt færi nú vel á endanum. Það var vissulega sérstakt að verða vitni að þessu með okkar allra fyrsta gest.“
Benedikt og Helga eru komin á aldur og töldu því rétt að huga að nýjum aðilum til að taka við. Þau höfðu samband við unga ættingja sem síðustu tvö sumur hafa unnið með þeim og eru núna tilbúnir. „Staðurinn verður áfram rekinn af heimafólki hér að austan, sem okkur fannst mikilvægt. Þetta er ungt og kraftmikið fólk sem hefur fundið áhuga.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.