Vopnfirðingar tóku gullið í First LEGO keppninni

Yfir 200 keppendur alls, 20 lið frá öllum landshornum en það reyndist lið DODICI úr Vopnafjarðarskóla sem stóð sig allra best í First LEGO keppninni sem fram fór um helgina. Tvö önnur austfirsk lið fengu ennfremur verðlaun í stöku flokkum.

Alls tóku fimm lið úr fjórum skólum af Austurlandi þátt í keppninni þetta árið en hún fór fram fyrir fullu húsi í Háskólabíói. Þar um að ræða eitt lið frá Vopnafjarðarskóla, Seyðisfjarðarskóla, Egilsstaðaskóla og tvö lið frá Brúarásskóla.

Keppnin hefur það markmið að efla áhuga ungs fólks á tækni og styrkja færni þeirra í lausnamiðaðri og skapandi hugsun og þar eru ungmennin að austan að standa sig vel. DODICI úr Vopnafjarðarskóla hlaut aðalverðlaun keppninnar sem samanstóð af forláta bikar úr legókubbum auk 200 þúsund króna í verðlaunafé. Þá býðst liðinu að taka þátt fyrir Íslands hönd í norrænni First LEGO keppni sem fram fer síðar í vetur.

Tvenn önnur lið af Austurlandi fengu auk þess verðlaun í stökum flokkum en alls var keppt í fimm mismunandi flokkum alls. Annars vegar lið 701 úr Brúarásskóla sem fékk fyrstu verðlaun fyrir bestu liðsheildina og hins vegar liðið El Grilló úr Seyðisfjarðarskóla sem náði þriðja sætnu fyrir besta nýsköpunarverkefnið.

Þetta hreint ekki í fyrsta skiptið sem DODICI hirðir gullið í First LEGO hérlendis en samkvæmt upplýsingum Austurfréttar stendur hugur þeirra til að taka þátt í sjálfri heimsmeistarakeppni First LEGO sem fram fer í bandarísku borginni Houston á vormánuðum næsta árs.

Allir keppendur samankomir á sviði í lok keppninnar þetta árið. Síðar í vetur keppir DODICI frá Vopnafirði fyrir Íslands hönd í norrænni First LEGO keppni. Mynd Kristinn Ingvarsson 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.