Yfir 40 viðburðir á Hammond hátíð ársins á Djúpavogi

Ekkert skal fullyrt enda enginn tekið það sérstaklega saman en góðar líkur eru á að Hammondhátíð Djúpavogs 2024 verði stærsta og fjölbreyttasta hátíðin nokkru sinni. Hún hefst óformlega á morgun þó aðaldagskráin sé um komandi helgi.

Fyrr þennan daginn var fyrsta kennimerki, lógó, Hammond hátíðarinnar opinberað almenningi en það merki má sjá hér til hliðar. Haldin var sérstök keppni um besta lógó hátíðarinnar og hlutskarpastur varð listamaðurinn Vilhjálmur Warén. Þótti hönnun hans „ná fullkomlega utan um það sem talið er að merki fyrir Hammondhátíð eigi að vera. Einfaldleiki, gleði og dýpt einkennir merkið ásamt því að segja hvað er og hvar.

Vorboði Djúpavogs

Gréta Mjöll Samúelsdóttir er ein þeirra sem hart hafa unnið að undirbúningi hátíðarinnar og sjálf segir hún skjálfta kominn í heimamenn enda sé Hammond nánast orðin eins og jólin og fyrsti vorboðinn hvert ár. Alltaf sé spenningur fyrir þessum hugsanlega skemmtilegasta tíma ársins meðal þorpsbúa.

„Ég skal nú ekki fullyrða neitt um hvort fjöldi viðburða er met en það veit ég að dagskráin er viðamikil og þar sannarlega eitthvað fyrir alla á öllum aldri. Bæði er aðaldagskráin mjög spennandi um helgina en svo er alltaf að bætast við forvitnilegir viðburðir utandagskrár dagana fyrir. Sú dagskrá hefst einmitt á morgun.“

Dagskrána í heild má sjá og finna á Facebook undir heitinu Hammondhátíð Djúpavogs en utandagskráin hefst klukkan 11 í fyrramálið þegar þorpsbúar og nemendur í Djúpavogsskóla hefja upp raust sína og syngja saman. Þar með verður hátíðin þetta árið óformlega sett. Ekki tekur verra við í leikskólanum síðdegis þegar leikskólabörnin á Bjarkartúni syngja saman vel æfða dagskrá tileinkaðri listamanninum Prins Póló sem lengi bjó í grenndinni. Þá er og markvert á morgun að þá opnar fyrsta sinni í hinu þekkta Faktorshúsi brugghús Beljanda frá Breiðdalsvík og þar boðið upp á lifandi tónlist í tilefni dagsins.

Öll púsl að falla á réttan stað

Þá aðeins þrír viðburðir taldir af rúmlega 40 talsins sem fram fara næstu daga allt fram á sunnudaginn kemur. Veðurspáin er góð alla dagana og Gréta segir pínu táknrænt að fjallvegurinn um Öxi hafi einmitt opnað fyrr í vikunni. Öll réttu púslin séu þannig að falla.

Aðspurð um hvort vart hafi orðið við mikinn áhuga gesta annars staðar frá segir Gréta Mjöll að það klikki aldrei að fullt sé á Hótel Framtíð yfir þennan tíma og það verði eflaust raunin nú líka.

„Ég er reyndar ekki með tölur á hreinu en miðað við það sem ég heyrt þá gengur miðasalan mjög vel og heildarpassarnir á alla viðburði eru að klárast en það er nokkuð af miðum eftir á staka viðburði þannig að það er enn tækifæri fyrir áhugasama að koma og skemmta sér með okkur hér.“

Allra fyrsta lógó Hammondhátíðarinnar á Djúpavogi er „extra wild“ eins og komist er að orði hjá skipulagsnefndinni. Það vísar til öfugu nótnanna á Hammondorgelum þar sem svörtu nóturnar eru hvítar og þær hvítu svartar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.