Yfirmáta stolt af starfsfólki Þjóðkirkjunnar á Austurlandi

Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, segir presta og annað starfsfólk Þjóðkirkjunnar, hafa staðið sig vel á erfiðum tímum á Austurlandi í haust. Guðrún, sem tók við sem biskup í haust, stefnir á að vera með reglulega viðtalstíma utan höfuðborgarsvæðisins og byrjaði á Austurlandi.

„Ég sé ekkert annað fyrir mér en að gera þetta reglulega eftirleiðis því mér finnst mikilvægt að fólk tengi biskup ekki bara við höfuðborgarsvæðið,“ segir Guðrún sem var með opna skrifstofu og viðtalstíma á Egilsstöðum í október.

„Það eru margir að segja mér frá hvað þeir séu ánægðir með störf kirkjunnar hér um slóðir. Ég hef heyrt töluverða ánægju með prestana sem er gaman að heyra, þó það komi ekkert á óvart. Einnig lýsir fólk áhyggjum af stöku málum eins og til dæmis fjárhag kirkjunnar sem við öll höfum áhyggjur af.“

Aðskilnaður ríkis og kirkju jákvæður


Nokkur ár eru nú liðin síðan að næsta fullur aðskilnaður varð á milli þjóðkirkjunnar annars vegar og íslenska ríkisins hins vegar en það hafði í för með sér að nú þarf kirkjan sjálf að sjá um sig og sína án reglulegrar ríkisaðstoðar. Þá þróun segir Guðrún vera jákvæða.

„Skipulagið hefur breyst mjög með þessu fyrirkomulagi og kirkjan í dag hefur nánast engin tengsl við ríkið. Við erum nú algjörlega sjálfstæð varðandi fjárhaginn þannig að segja má að öll málefni kirkjunnar heyra nú undir hana sjálfa. Kirkjan er þannig sjálfstæðari, prestar eru ekki lengur embættismenn. Annað sem hefur gerst síðustu árin er þessi breyting á samsetningu íbúa landsins. Það hefur auðvitað í för með sér að hlutfall þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni breytist.“

Meðvituð um áföllin austanlands


Síðasta ár reyndist mörgum íbúum fjórðungsins erfið vegna áfalla sem höfðu mikil áhrif á samfélagið. Prestarnir á svæðinu leiddu fleiri en eina minningar- og kyrrðarstund vegna þeirra.

„Ég er yfirmáta stolt af prestunum hér og öllu starfsfólki kirkjunnar því þau hafa öll lagt mjög mikið af mörkum í öllum þeim áföllum sem hafa dunið yfir marga íbúa hér á Austurlandi síðustu árin. Það er ekkert auðvelt starf að veita sáluhjálp og aðra aðstoð við erfiðustu aðstæður en það hefur allt fólk þjóðkirkjunnar hér sannarlega gert og á mikinn heiður skilið.

Ekki hvað síst er ég afskaplega ánægð með hversu mikil og góð samvinna hefur verið á milli presta og starfsfólks Þjóðkirkjunnar og fjölmargra annarra aðila sem að slíkum málum koma þegar eitthvað á bjátar. Allt það samstarf er af hinu góða og gagnast sannarlega öllum er eiga um sárt að binda út af áföllum. En slíkt starf er ekkert auðvelt og við höfum gætt þess vandlega að fólk fái frí og komist reglulega frá því það tekur sannarlega á sálina að vera til staðar fyrir aðra þegar mikið gengur á í langan tíma.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.