Ást fyrir letingja

Ástarsambönd eru flókin fyrirbæri. Tveir einstaklingar kjósa að binda trúss sitt saman, stundum með eilítið skerta dómgreind í því vímuástandi sem fylgir því að vera ástfanginn. Við vitum ekki alltaf alveg af hverju við verðum ástfangin af einhverjum, en fyrir því geta verið ýmsar ástæður, meðvitaðar og ómeðvitaðar.

Þegar ástarbríminn dofnar förum við stundum að sjá makann í nýju ljósi og farangurinn sem báðir aðilar dröslast með í bakpoka uppvaxtaráranna getur farið að gera vart við sig og valda ýmiskonar núningi. Oft dofnar yfir kynferðislegum áhuga í brauðstriti og barnabrasi hversdagsins og fólk á minna aflögu hvert fyrir annað.

Í grein sem ég skrifaði á dögunum talaði ég um mikilvægi þess að vinna gegn þessu með því að „leggja inn í gleðibankann“, þ.e. að sýna makanum athygli, ástúð og umhyggju og leggja sig fram um að mæta tilfinningalegum þörfum eftir bestu getu. Ég talaði einnig um mikilvægi þess að forðast það sem mest að taka út af reikningnum með persónulegum árásum og gagnarásum, hunsun og fyrirlitningu. Við þurfum að hafa jafnvægi á reikningnum til lengri tíma, því annars endum við á yfirdrætti, að lokum gjaldþroti og sambandsslitum.

Það sem mér finnst mikilvægt að komist til skila er að ástin gengur ekki upp ef við ætlum að umgangast hana eins og nafnorð. Það er sögnin – „að elska“ - sem skiptir máli. Ást er abstrakt og loftkennt hugtak sem er safnheiti yfir ótal hluti og hugmyndir. „Að elska“ er meira konkret og praktískt hugtak og margfalt gagnlegra í parsambandi. Ef fókusinn er á „ást“ (eða skort á henni) er sambandið husanlega dauðadæmt. Ef hann er á „að elska“ hefur fólk meira til að vinna með. „Að elska“ er að gera sitt besta til að leggja inn á reikninginn í gleðibankanum og taka sem minnst út”.

Hvað áttu við?

En þá að fyrirsögninni! „Ást fyrir letingja“. Hvað á ég við með því? Fyrirsögnin er auðvitað djók og smellubeita, en samt ekki. Þetta er allt svo flókið og erfitt, segir fólk stundum. Er ekki hægt að gera eitthvað einfalt til að halda innistæðunni í lagi? Og jú, það er vissulega hægt.

Eitt það öflugasta og einfaldasta sem hægt er að gera til að elska meira og betur, er að auka snertingu í dagsins önn. Við höfum sterka meðfædda þörf fyrir blíðlega snertingu. Slík snerting getur skapað öryggistilfinningu sem getur breytt miklu í sambandinu. Við blíðlega snertingu og líkamlega nánd framleiðir líkaminn hormónið oxýtósín, sem stundum hefur verið kallað tengslahormónið.

Þegar við upplifum tengsl og nánd við annað fólk framleiðir líkaminn þetta hormón og því fylgir vellíðan. Blíðleg snerting er best til þess fallin að örva framleiðslu hormónsins og við endurtekna snertingu förum við að tengja nærveru makans við vellíðanina og öryggistilfinninguna sem fylgir snertingunni og nándinni. Þetta er því afar einföld leið til að styrkja sambandið og eitthvað sem jafnvel latir og órómantískir makar geta tileinkað sér.

Gefa, þiggja, elska

Best er að ræða þetta við makann og sjá hvort hann/hún er ekki til í að prófa þetta. Það getur auðvitað verið krípí ef makinn byrjar skyndilega að snerta mann í tíma og ótíma upp úr þurru, sérstaklega ef snerting hefur verið takmörkuð í langan tíma. Því er gott að ræða hvernig þið viljið hafa þetta og hvort það er eitthvað sem ykkur þykir óþægilegt.

Það getur líka verið gott að undirstrika að tilgangurinn með snertingunni er ekki kynferðislegur, þótt aukin snerting geti vissulega haft jákvæð áhrif á kynlíf. Þegar þessi einföldu atriði eru komin á hreint þarf svo bara að muna að snerta og leyfa makanum að snerta sig: Knús (því lengri því betra), kossar, strokur, klapp á bakið, augnsamband, kúr, haldast í hendur. Gefa. Þiggja. Elska. Endurtakist þangað til annað ykkar deyr. Einfalt!

(Varnagli: Þeir sem hafa orðið fyrir áföllum á borð við líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi sem ekki hefur verið unnið úr getur fundist snerting óþægileg eða ógnandi. Eins er ekki víst að aukin snerting sé til gagns ef sambandið er molum eða ef um ofbeldi í sambandi er að ræða. Í slíkum tilvikum er rétt að leita aðstoðar sem fyrst.)

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.