Eru góð sambönd lykillinn að hamingju og langlífi?

Stutta svarið er við þessari spurningu er: Já, mjög líklega. Í það minnsta ef eitthvað er að marka einhverja lengstu rannsókn sem framkvæmd hefur verið á þróun heilsu og hamingju fólks.

Rannsóknin var framkvæmd af Harvardháskóla og hófst árið 1930. Í rannsóknina voru valin ungmenni úr mjög ólíkum hópum: Úr röðum nýnema við Harvardháskóla og úr fátækrahverfum Bostonborgar. Rúmlega 700 þátttakendum var fylgt ævina á enda og var gögnum um þá safnað reglulega (Reyndar er rannsóknin enn í gangi, þótt fáir af upphaflegu þátttakendunum séu enn á lífi). Rannsóknin var vönduð og fjölþætt og byggðist m.a. á viðtölum, spurningakönnunum, læknisskoðunum, sjúkrasögu og viðtölum við aðstandendur.

Skýrasta og markverðasta niðurstaðan er sú að góð sambönd við annað fólk spá best fyrir um langlífi og hamingju, betur en efnahagur, gen og lífsstíll. Þessar niðurstöður ríma vel við aðrar rannsóknir á áhrifaþáttum langlífis og hamingju, sem og rannsóknir á áhrifum einmanaleika á heilsu og lífslíkur. Þeir sem eiga góð sambönd við annað fólk eru líklegri til að vera hamingjusamir og langlífir. Þeir sem eiga slæm sambönd við aðra, eru einangraðir og einmana eru almennt óhamingjusamari og skammlífari.

Maður ER manns gaman. Við erum félagsverur, ekki einfarar. Þessi staðreynd blasir við þegar þróun mannsins er skoðuð, því meira en 99% af þróunarsögu mannsins vorum við veiðimenn og safnarar. Við lifðum í náttúrunni í hópum sem töldu nokkra tugi og í sameiningu lifðum við af gæðum náttúrunnar. Stök manneskja var svo gott sem dauðadæmd. Því er engin furða að einangrun sé streituvaldandi og hafi neikvæð áhrif á lífsgæði okkar.

Þetta þýðir að ef þú ætlar að fjárfesta í einhverju sem bætir lífsgæði þín, þá er best að veðja á sambönd við annað fólk. Ef þú ætlar að bæta þig í einhverju er vænlegast að stefna að aukinni færni í að byggja upp og viðhalda góðum samböndum við fjölskyldu og vini. Fjárfestu í parsambandinu þínu og sambandinu við börnin þín. Hafðu reglulega samband við þá vini sem þú átt fyrir. Taktu fyrsta skrefið í að eignast nýja vini. Taktu þátt í félagsstarfi. Bjóddu fram hjálp, aðstoð og stuðning. Sýndu fólki áhuga og hlýju.

Þetta er færni sem er hægt að læra og bæta sig stöðugt í. Við ættum því kannski að leggja aukna áherslu á hana í skólastarfi, félagsstarfi og fjölskyldulífi. Skiptum út skjátíma fyrir alvöru samskipti (um leið og sóttvarnarreglur leyfa!). Brjótum niður múra og byggjum brýr á milli okkar. Minnkum dómhörkuna og látum hvert annað njóta vafans. Tölum, hlæjum og grátum saman. Horfumst í augu, föðmumst og kyssumst. Verum til staðar hvert fyrir annað og leggjum inn í gleðibankann.

Ekkert er betur til þess fallið að auka líkurnar á löngu og hamingjusömu lífi.

(Þeir sem eru áhugasamir geta séð góðan fyrirlestur um Harvardrannsóknina hér)

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.