240 milljónir í orkutengda nýsköpun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. feb 2023 11:08 • Uppfært 03. feb 2023 11:08
Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Austurbrú, Landsvirkjun og umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytið skrifuðu í gær undir samning til fjögurra ára um samstarf um nýsköpun á Austurlandi sem byggir á hringrásarhagkerfinu og orku.
Framlag stofnaðilana á þessu fjögurra ára tímabili nemur 240 milljónum króna. Meginmarkmiðið er að efla nýsköpun og þróun með áherslu á að bæta nýtni hliðarstrauma og flétta þá inn í nýja verðmætasköpun, eins og það er orðað í fréttatilkynningu.
Þetta á að styðja við vöxt sprotafyrirtækja og fjölga tækifærum til þátttöku í alþjóðlegum rannsókna- og þróunarverkefnum í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Ætlunin er að leiða saman aðila til að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum.
Með auknu samstarfi fyrirtækja og opinberra aðila er ýtt undir verkefni sem byggja á verðmætasköpun úr vannýttu hráefni, bæði því sem er til staðar en líka því sem verður til vegna nýrra verkefna eða framleiðslu.
Skrifað var undir samninginn í Fljótsdalsstöð í gær. Gert er ráð fyrir að innan tíðar verði auglýst tvö störf við verkefnið sem hýst verða hjá Austurbrú en án staðsetningar innan fjórðungsins.
Heitið Eygló vísar til öflugasta orkugjafans, sólarinnar og bjartrar og kraftmikillar framtíðar. Sambærilegt verkefni eru í gangi í öðrum landshlutum og hafa gefist vel, Eimur á Norðurlandi, Orkídea á Suðurlandi og Blámi á Vestfjörðum.
„Eygló rímar vel við skýra sýn Austfirðinga um hvernig takast megi á við þær áskoranir sem snúa að loftslagsmálum og hringrásarhagkerfinu sem lagt er fram í svæðisskipulagi Austurlands. Eygló byggir á því að nýta svæðisbundinna styrkleika, innviði, fyrirtæki og mannafla til að mynda frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og aukna verðmætasköpun.
Þessi grunnur og sá slagkraftur sem stuðningur Landsvirkjunar og ráðuneytisins gefa með þessu verkefni mun án efa nýtast öllu Austurlandi til framfara,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, stjórnarformaður Austurbrúar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.
„Hér gefst okkur tækifæri til að virkja það hugvit, auðlindir og þekkingu sem fyrir hendi er í landshlutanum. Sameiginlegt átak og stuðningur öflugra aðila skiptir þó sköpum eigi betri nýting auðlinda og frekari verðmæta- og nýsköpun að verða að veruleika. Það er ánægjulegt að ráðuneytið sé slíkur bakhjarl,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála
„Lykilinn að árangri við leit að sjálfbærari lausnum til framtíðar er að ólíkir aðilar vinni saman við að koma auga á og þróa áfram nýjar lausnir. Það er mjög ánægjulegt að sjá þetta samstarf milli sveitarfélaga á Austurlandi, ráðuneytisins og Landsvirkjunar verða að veruleika og þannig styðja við uppbyggingu þekkingar og framþróunar á sviði orkutengdrar nýsköpunar á Austurlandi,“ sagði Sigurður H. Markússon, forstöðumaður nýsköpunar hjá Landsvirkjun, sem undirritaði fyrir hönd fyrirtækisins.