Geta ekki fellt niður próftökugjald framhaldsskólanema í fjarnámi
Austurbrú getur ekki fellt niður próftökugjöld vegna fjarnáms í framhaldsskóla eins og raunin er gagnvart háskólanemum. Ástæðan sú að engir eru samningar við mennta- og barnamálaráðuneytið um slíkt.
Það var heimastjórn Djúpavogs sem fékk fyrir nokkru kvörtun frá íbúa einum vegna prófgjalda í fjarnámi við framhaldsskóla en það er á höndum Austurbrúar að sinna prófaþjónustu á Austurlandi.
Vildi heimastjórnin í kjölfarið fá svör við hvers vegna svo væri enda bæði hamlandi og gengi gegn almennri jafnræðisreglu. Svo mjög að slík gæti orkað letjandi á ungmenni sem vilja dvelja í heimabyggð og verða sér úti um aukna menntun í fjarnámi.
Í svari Austurbrúar til heimastjórnarinnar kemur fram að háskólanám og framhaldsskólanám sé á höndum tveggja mismunandi ráðuneyta. Háskólanám í höndum menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins en mennta- og barnamálaráðuneytið hefur umsjón með framhaldsskólanámi. Austurbrú sé með samning við fyrrnefnda ráðuneytið um prófþjónustu án gjaldtöku en enginn slíkur samningur sé við mennta- og barnamálaráðuneytið.
Á það er þó bent að prófkostnaður menntaskólanema sé þó aðeins fjögur þúsund krónur og gildir þá einu hvort um er að ræða eitt próf á önn eða fleiri.