Ekki talið að kveikt hafi verið í af ásettu ráði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. des 2014 11:19 • Uppfært 12. des 2014 11:20
Lögreglan telur að ekki hafi verið um að ræða íkveikju af ásettu ráði þegar eldur kom upp í timburgámi við Post Hostel á Seyðisfirði aðfaranótt miðvikudags. Skjót viðbrögð á staðnum skiptu sköpum.
„Í gáminum var þurrt timbur og einhverjir vökvar. Það er ljóst að það kviknaði í út frá einhverju sem barst í gáminn en við teljum að það hafi ekki verið ásetningur að kveikja í," segir Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn á Seyðisfirði.
Greint var frá brunanum í Morgunblaðinu í gær en þar kom fram að slökkvibíllinn á Seyðisfirði hefði reynst rafmagnslaus þegar til átti að taka. Vakthafandi varðstjóri hafi þá farið eftir neyðaráætlun sem gekk fullkomlega upp.
Gámurinn stóð um tvo metra frá húsinu og fullur af efni úr því en framkvæmdir standa yfir í því. Þegar slökkviliðið mætti á svæðið var sprungin rúða á efri hæð hússins og eldurinn við það að læsa sig í húsið sjálft.