Skip to main content

Veðurteppt í skólanum örstutt frá heimilinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. des 2014 16:23Uppfært 15. des 2014 16:34

ingunn snaedal webIngunn Snædal, kennari í Brúarásskóla í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði, er veðurteppt í skólanum sem stendur rétt við heimili hennar. Hún segir aftakaveður á svæðinu.


Skólahaldi í Brúarási var aflýst í gærkvöldi en Ingunn ákvað að líta við í skólanum eftir hádegið og athuga hvort ekki væru allar gáttir vel lokaðar.

Hún hefur hins vegar ekki komist þaðan aftur þrátt fyrir að aðeins séu um 30 metrar að heimil hennar.

„Ég skreið tvisvar út að ljósastaur sem stendur hér við húsið en hætti við þar. Vindurinn stendur beint í fangið á manni þegar komið er fyrir hornið," segir Ingunn.

Hún segir að ekki sé úrkoma á svæðinu en hvassviðrið feykir nýföllnum, léttum snjónum til þannig. Ísnálarnar stingi síðan í augun sem sé mjög óþægilegt.

Ingunn er annars róleg í skólanum. „Þetta er Ísland, maður verður bara að taka þessu. Ég bíð róleg þar til dúrar í."