Rafmagn komið á í Njarðvík og Breiðdalsvík: Ekkert gamanmál þegar húsin kólna

breiddalsvik2008Rafmagn er komið á aftur í Njarðvík en þar höfðu íbúar verið án rafmagns síðan á sunnudagskvöld og á Breiðdalsvík þar sem rafmagnið fór eftir hádegi í gær. Oddviti Breiðdalshrepps segir að gerði verði krafa um að varaaflstöð sé til staðar fyrir svæðið.

Rafmagn komst á aftur í Breiðdal klukkan 12:30 í dag en það hafði þá verið úti síðan klukkan 14:00 í gær. Aðalspennir við Ormsstaði í Breiðdal bilaði og fá þurfti annan með flutningabíl úr Reykjavík.

Varaspennar eru ekki tiltækir á Austurlandi, ekki er varaaflstöð á Breiðdalsvík og ekki er færanleg varaaflstöð til staðar í fjórðungnum. Ein slík var á Fáskrúðsfirði en hún var send til Þórshafnar þegar eldsumbrot hófust við Bárðarbungu.

Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, segir Breiðdælinga hafa skilning á að óvæntar bilanir geti komið upp en bagalegt sé að íbúar séu lengi án rafmagns á svæðum þar sem hús eru hituð með rafmagni.

„Þar hlýtur stofnun eins og RARIK að vera með viðbragðsáætlun og jafnvel neyðaráætlun þegar neyðarástand skapast líkt og gerðist í Breiðdal í tæpan sólarhring."

„Það er ekkert gamanmál, þegar hitastig í húsum er komið niður í 10 stig og í morgun þurfti meðal annars að flytja gamlan mann á sjúkrahús vegna ofkælingar. Þar sem hann liggur nú með lungnabólgu."

Takmarkaðar upplýsingar til íbúa

Hann gagnrýnir RARIK fyrir skort á upplýsingum til íbúa. „Það óvenjuleg ráðstöfun að láta íbúana vita af vandamálinu í gegnum útvarp í miðju rafmagnsleysi. Hins vegar réðust sveitarfélagið og björgunarsveitin í að hafa samband við alla íbúa í gærkvöldi, til að þeim væri ljóst hver vandinn væri og var öllum boðin aðstoð ef á þyrfti að halda."

Hann undrast orð Ólafs Birkissonar, deildarstjóra netreksturs RARIK á Austurlandi, sem í samtali við Austurfrétt í morgun benti á að spennarnir væru of dýrir til að liggja með þá á lager.

„Ég undrast að hann skuli svara spurningum blaðamanns með hálfgerðum skætingi. Ég tel að hann ætti frekar að biðja Breiðdælinga afsökunar á ástandinu."

Hann ítrekar að Breiðdælingar fari ekki fram á að spennarnir séu á lager um allt land en hins vegar séu til staðar færanlegar rafstöðvar.

„Við höfum skilning á því að þurft hafi að flytja hana til Þórshafnar í haust, þegar gos í Holuhrauni byrjaði, en RARIK hafði meira en 100 daga til að flytja eina aðra færanlega rafstöð á Austurland, svo hún væri tiltæk þar.

Ef svo hefði verið hefðum við Breiðdælingar fengið rafmagn um klukkan sjö í gærkvöldi í staðinn fyrir hálf eitt í dag," segir Hákon og segir að gerð verði krafa um að framvegis verði slík stöð til staðar á svæðinu.

Íbúar í Njarðvík fengu rafmagn á ný klukkan þrjú í dag en þeir höfðu verið án þess síðan á sunnudagskvöld. Millispennir bilaði í línu á milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.