RARIK: Að meðaltali ein bilun á hverjum 100 árum sem gerir aflspenni óstarfhæfan

bdalsvik hh1Bilanir í aflspennum eins og sú sem olli sólarhringsrafmagnsleysi á Breiðdalsvík í vikunni eru afar fátíðar. Senda varð spenni úr Reykjavík þar sem ekki var fært frá Akureyri. Varaaflstöð Austurlands er enn staðsett á Þórshöfn þar sem hættu á hamfaraflóði í Jökulsá á Fjöllum hefur ekki verið aflýst.

Þetta kemur fram í svari Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK, við fyrirspurnum Austurfréttar um viðbrögð fyrirtækisins við rafmagnsleysinu í Breiðdal. Íbúar í Breiðdal voru án rafmagns í tæpan sólarhring eftir að spennir í aðveitustöð við Ormsstaði gaf sig.

Nýjan spenni þurfti að fá frá Reykjavík en hann vegur 15 tonn og því þurfti öflugan flutningabíl með krana til að flytja hann.

Telur viðbragðsáætlunina fullnægjandi

Í svari Tryggva kemur fram að 66 aflspennar séu í 52 aðveitustöðum. Þeir séu mismunandi að gerð og því séu til átta mismunandi spennar til vara. Flestir eru geymdir í Akureyri en einnig í Reykjavík.

„Áætlanir okkar um viðbrögð við bilun á aflspennum byggja á því að við eðlilegar aðstæður á alltaf að vera mögulegt að koma varaspenni á áfangastað innan fárra klukkustunda," segir Tryggvi.

„Líklegra er að þeir bili þegar hlýtt er í veðri og kæling þeirra minni og því teljum við að áætlun okkar um viðbrögð sé mjög vel ásættanleg og mun betri en við getum tryggt gagnvart bilunum í öðrum hlutum kerfisins, sérstaklega línubilunum.

Vegna aðstæðna í fyrradag var því miður ekki hægt að koma varaspenni frá Reykjavík á skemmri tíma en raun varð á, en ljóst var að vegna veðurs og færðar hefði tekið lengri tíma að flytja annan varaspenni sem við eigum á Akureyri."

Hafa styrkt dreifikerfið

Bilanir í spennunum eru afar fátíðar, „að meðaltali innan við ein á hverjum eitt hundrað árum." Viðgerð á þeim er hins vegar afar tímafrek og því eru varaspennar til taks.

Tryggvi segir að „sem betur fer" gerist það æ sjaldnar að heilu byggðarlögin verði rafmagnslaust í heilan sólarhring. Slíkt geti þó gerst og sé „alltaf mjög bagalegt fyrir íbúa." Á Breiðdalsvík eru hús kynt með rafmagni og því kom bilunin sérstaklega illa við íbúa.

Til að reyna að koma í veg fyrir það verju RARIK „verulegum fjármunum" á hverju ári til að styrkja og endurnýja dreifikerfi sitt. Unnið hefur verið að því að leggja jarðstrengi og fjölga færanlegum varavélum undanfarin ár, þannig að lágmarki sé ein í hverjum landsfjórðungi.

Varavélin átti að vera komin austur

Varavél fyrir Austfirði hefur verið staðsett á Fáskrúðsfiðri en hún var síðsumars send norður á Þórshöfn til að bregðast við því ef raforkuflutningur skertist við flóð í Jökulsá á Fjöllum.

„Það var mat RARIK að mestar líkur á þörf fyrir varavélar RARIK væri í Norður-Þingeyjasýslu, því þangað liggur ein lína og varaafl þar ræður ekki við orkuþörfina. Áætlun okkar var að fyrir veturinn yrði vélin send aftur til Fáskrúðsfjarðar.

Vissulega má segja að hugsanlega sé kominn tími til að fara í þann flutning, en fram til þessa hefur það ekki verið talið rétt þar sem hættu á hamfaraflóði í Jökulsá á Fjöllum hefur ekki verið aflýst."

Þá eru fastar varaaflstöðvar í nokkrum byggðarlögum en þær eru fyrst og fremst í þéttbýlisstöðvum þangað sem liggur aðeins ein lína svo sem Borgarfirði, Vopnafirði og Norðfirði. Til Breiðdals liggja tvær línur.

Farið yfir upplýsingagjöf

Breiðdælingar hafa einnig gagnrýnt skort á upplýsingum, aðeins var send tilkynning til Ríkisútvarpsins en ekkert birtist til dæmis á vef RARIK.

„Við höfum reynt að koma tilkynningum um straumleysi inn á vef RARIK og til fjölmiðla og hefur svæðisvakt það verkefni hjá sér. Tilkynning vara send til RÚV, en ég hef ekki fengið haldgóðar skýringar á því hvers vegna þetta var ekki sett á heimasíðuna, en við munum að sjálfsögðu skoða ástæður þess."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.