Afgreiða jólakort fyrir allt landið: Þyrftum að vera hér 20 tíma á sólarhring

kari jobba des14Starfsmenn Myndsmiðjunnar á Egilsstöðum hafa haft í nógu að snúast síðustu daga en fyrirtækið fær mikið af pöntunum um jólakort alls staðar af landinu. Þá segir framkvæmdastjóri vaxandi spurn eftir framköllun mynda.

„Við fáum 50-70 pantanir á dag og sendum hátt í 200 tölvupósta daglega. Fyrst og fremst eru þetta jólakort en það er einnig töluvert um venjulegar framkallanir, stækkanir og strigaprentanir," segir Kári Hlíðar Jósefsson, framkvæmdastjóri Myndsmiðjunnar.

Hann segir flestar pantanirnar berast úr Reykjavík þar sem orðspor fyrirtækisins hafi spurst út. „Ef maður vinnur hratt og vel kemur fólk aftur. Við sjáum sömu nöfnin ár eftir ár, sumir hafa skipt við okkur í 10-11 ár.

Fyrir fjórum árum fengum við í fyrsta sinn pöntun frá Selfossi en þær eru yfir 100 í ár. Við sjáum enga aðra skýringu á því en að viðkomandi var mjög þakklátur."

Hraðinn veltur á greiðum tölvupóstssamskiptum. Eftir að pöntun hefur verið staðfest tekur tvo daga að afgreiða hana. Álagið er hins vegar mikið á starfsmenn í desember.

„Faðir minn (Jósef Marinósson) er hér 20 tíma á dag. Við bræðurnir (Kári og Máni) erum fjölskyldumenn og erum 12-16 tíma á dag en þyrftum að vera 20 tíma á dag.

Síðan eru báðar systur okkar (Auðdís Tinna Hallgrímsdóttir og Agnes Lilja Jósefsdóttir) í vinnu hjá okkur auk þess sem síðustu dagana bætist við starfsmaður (Jónas Reynir Gunnarsson) sem vinnur bara grafík. Hann hefur verið hjá okkur í átta ár og gengur því beint inn í starfið."

Prentun mynda á striga nýtur vaxandi vinsælda auk þess sem fleiri láta framkalla myndir upp á gamlar myndir.

„Framköllunin dó í mörg ár en nú áttar fólk sig á týnda áratugnum, 2000-2010, þar sem engin albúm eru til og byrjar aftur að framkalla."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.