Kviknaði í dráttarvél á verkstæði: Eitt það furðulegasta sem ég hef séð
Ótrúlegt tilviljun virðist hafa ráðið því að ekki fór verr þegar kviknaði í dráttarvél hjá raftækjaverkstæðinu Rafey á Egilsstöðum í gærmorgun. Hiti frá eldinum bræddi vatnslögn þannig að vatn sprautaðist úr henni yfir eldinn og slökkti hann.„Þetta er eitt það ótrúlegasta sem ég hef séð á ævinni og hef ég þó séð ýmislegt," segir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Fljótsdalshéraðs.
Traktorinn stóð á lyftu í suðurhorni byggingarinnar. Yfir honum var ljósahjálmur og þar yfir vatnsrör. Eldurinn virðist hafa brætt gat á vatnslögnina þannig að vatn sprautaðist úr henni og niður á ljósahjálminn sem dreifði vatninu eins og sturtuhaus yfir dráttarvélina svo að slokknaði í henni.
Ekki er vitað hvenær um nóttina eldurinn braust út en þegar fyrsti starfsmaður mætti til vinnu klukkan hálf sjö um morguninn var húsið fullt af reyk.
Í samtali við Austurfrétt sagði Baldur að ótrúlegt lán sé að eldurinn hafi ekki náð að breiða úr sér og læsa sig í húsið.
Máni Sigfússon, einn af eigendum Rafeyjar, segir töluvert tjón hafa orðið á verkfærum og búnaði vegna hita og reyks. Í húsinu hafi einnig verið raftæki í viðgerð og þau þurfi að hreinsa eftir eldinn.