Aldrei fleiri hreindýr verið keyrð niður á einu ári
Náttúrustofa Austurlands varar ökumenn á Austurlandi við hreindýrum á vegum á Austurlandi í skammdeginu. Yfir þrjátíu dýr hafa lent fyrir bíl það sem af er ári og hafa aldrei verið fleiri dýr verið keyrð niður á einu ári.Frá Mýrum og að minnsta kosti að Djúpavogi eru margir smáhópar dreifðir og ganga þeir oft nærri þjóðveginum. Einnig eru hópar nærri þjóðvegi á Jökuldalsheiði og í Vopnafirði. Eins og fyrr þurfa vegfarendur að vera á verði frá Jökulsá á Breiðamerkursandi og norður í Þistilfjörð.
Í samantekt frá Náttúrustofu Austurland kemur fram að í gegnum tíðina hafi langflest dýr verið keyrð niður í nóvember en síðan janúar og desember.
„Það kemur ekki á óvart að flest óhöppin verði í frosnu skammdeginu þegar dýrin eru víða nærri vegum," segir í fréttu stofunnar.
Alls varð 31 dýr fyrir bílum í fyrra, þar af 12 í einu slysi á Langadal vestan Vopnafjarðarvegar og var það mesti fjöldi frá árinu 2007. Það ár urðu yfir 20 dýr fyrir bílum á Fljótsdalsheiði.
Í tölunum kemur fram að hættulegustu staðirnir séu Lónið, Jökuldalsheiði, Vopnafjörður, Fagridalur og Reyðarfjörður. Fast á hæla þeirra eru Mýrar, Nes og Hamarsfjörður. Eftir að framkvæmdum lauk á Fljótsdalsheiði hefur ekkert hreindýr orðið fyrir bíl þar.
Náttúrustofan hvetur því vegfarendur til að aka varlega í skammdeginu, einkum á hættulegustu stöðunum þar sem hreindýr geta fyrirvaralaust ætt inn á veginn í veg fyrir bíla.