Stóriðjuskóli Alcoa Fjarðaáls útskrifar 50 nemendur á árinu
Um miðjan desember útskrifuðust fyrstu nemendur frá Stóriðjuskóla Alcoa Fjarðaáls, alls 20 manns, sem lokið hafa bæði grunn- og framhaldsnámi við skólann, en námið tekur tvö og hálft ár.Alls hafa fimmtíu manns lokið námi við skólann á árinu. Auk þeirra tuttugu sem að ofan er getið luku nítján manns grunnnámi 10. desember, og ellefu starfsmenn luku námi síðastliðið vor.
Stóriðjuskóli Alcoa Fjarðaáls tók til starfa haustið 2011, en hann er samstarfsverkefni Austurbrúar, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjarðaáls. Kennt er samkvæmt námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, „Nám í stóriðju". Námið er hægt að fá metið til eininga á framhaldsskólastigi.
Grunnnámið tekur þrjár annir og hafa 49 starfsmenn eða um 10% starfsmanna fyrirtækisins lokið grunnnámi.
Á vorönn sem hefst í upphafi nýs árs, 2015, verða rúmlega fimmtíu manns við nám í Stóriðjuskólanum, í kringum þrjátíu í grunnnámi og tuttugu og fjórir í framhaldsnámi. Öllum sem ljúka þriggja anna grunnnámi stendur til boða að halda áfram í fjögurra anna framhaldsnámi.
Að loknu námi frá Stóriðjuskólanum hækka grunnlaun starfsmanna um 5 prósent auk hækkana sem verða samfara auknum starfsaldri hjá fyrirtækinu.
Mynd 1: Hjónin Björgvin Ármannsson og Hrönn Bergþórsdóttir útskrifuðust bæði úr framhaldsnámi við Stóriðjuskóla Fjarðaáls 16. desember. Af því tilefni fengu þau myndarlega blómvendi frá börnum, barnabörnum og barnabarnabarni. Í ávarpi fyrir hönd nemenda, þakkaði Hrönn fyrir tækifærið til að fá að setjast aftur á skólabekk. Hrönn sagði námið hafa verið fræðandi en þó umfram allt skemmtilegt.
Mynd2: : Útskriftarnemar úr framhaldsnámi 16. desember, ásamt Magnúsi Þór Ásmundssyni forstjóra Alcoa Fjarðaáls sem klæddist annarri af tveimur jólapeysum sínum sem Magnús prýðist þessa dagana. Útskriftin fór fram hjá Austurbrú á Reyðarfirði, eftir kynningu á lokaverkefnum nemenda.