Gáfu HSA hnoðþjark
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. des 2014 14:26 • Uppfært 26. des 2014 22:49
Forsvarsmenn Ungmennafélagsins Ássins færðu nýverið Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum Lucas hnoðþjark sem safnað var fyrir á árinu.
Eiríkur Þorri Einarsson, úr stjórn Ássins og sjúkraflutningamaður, færði HSA gjöfina og tók Óttar Ármannsson yfirlæknir á Egilsstöðum við henni.
Söfnunin hófst í apríl á þessu ári og var leitað til fjölmargra fyrirtækja sem og til einstaklinga en tækið kostar rúmar tvær milljónir króna.
Með Lucas meðferðis í endurlífgun geta sjúkraflutningamenn einbeitt sér að öðrum málum eins og öndunarvegi, öndun, lyfjagjöf og reyna að leiðrétta það sem olli hjartastoppinu eða undirbúa tafarlausan flutning án þess að stöðva hjartahnoð.
Hjartahnoð er líkamlega erfitt og gæði hjartahnoðs hefur mikið með súrefnisflæði til heila og annarra mikilvægra líffæra að gera. Lucas getur hnoðað stanslaust og þarf aldrei hvíld og gæðin eru alltaf þau sömu. Með þessu móti þarf aldrei að skipta um hnoðara og tryggt er að sjúklingur fái stanslaust og jafnt hjartahnoð.