Kostnaður af garnaveikinni fellur á bændur
Bændur bera sjálfir kostnað af aðgerðum vegna garnaveiki sem greindist nýverið á Fljótsdalshéraði. Veikin leggst á jórturdýr en á ekki að vera hættuleg mönnum.Garnaveikin er ólæknandi sjúkdómur sem leggst á öll jórturdýr, þ.e. sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Veikin barst til landsins með 20 kindum sem fluttar voru inn frá Þýskalandi árið 1933 en með þeim barst einnig mæðiveiki og visna.
Tjónið var mikið og öllu fé á sýktum svæðum frá Jökulsá á Fjöllum, vestur suður og austur yfir á Mýrdalssand var fargað. Þar með var mæðiveikin upprætt en garnaveikin barst í nautgripi sem síðan sýktu aftur sauðféð, að því er fram kemur í samantekt Sigurður Sigurðarsonar, dýralæknis um sauðfjársjúkdóma.
Tjónið varð mikið og dæmi eru um að 40% af fullorðnu ásetningsfé hafi dáið árlega úr veikinni á þeim bæjum sem hún var verst. Því hefur þó verið haldið í skefjum eftir að bólusetning varð skylda á sýktum svæðum árið 1966.
Veikin hefur þau áhrif að skepnurnar þrífast illa og verða þar með vöðvarýrar og horaðar. Ekki hefur verið sannað að bakterían geti borist í fólk en kjöt af sýktum gripum er óhæft til neyslu.
Meðgöngutími sjúkdómsins er 1-2 ár. Örfá dæmi eru um að bakterían hafi fundist í haustlömbum.
Í svari Matvælastofnunar við fyrirspurnum Austurfréttar kemur fram að bændur beri sjálfir allan kostnað vegna veikinnar nema viðhald varnagirðinga á milli svæða.
Árið 2008 kom upp garnaveiki á þremur bæjum á Fljótsdalshéraði og tveimur í Fjarðabyggð árið 2010. Þá greindist þar eitt tilvik á nautgripabúi. Fyrir þessi tilvik töldu menn hafa upprætt veikina frá Melrakkasléttu suður í Berufjörð.
Í nóvember voru staðfest tilfelli veikinnar í Hróarstungu og Jökuldal. Ekki hefur verið skylda að bólusetja fyrir veikinni þar eða í Fljótsdal eða Fellum en hún verður það framvegis. Um leið og veikin kom upp var brugðist við með að bólusetja á öllu svæðinu.
Í samantektum Matvælastofnunar um sjúkdóminn kemur fram að beint kúabænda af garnaveiki í dag sé nánast ekkert en dæmi séu hins vegar um að varnaraðgerðir hafi valdið einstaklingum umtalsverðu tjóni.
Á sauðfjárbúum er beint tjón vegna veikinnar sagt vera hverfandi. Sem fyrr segir hefur ekki verið skylda að bólusetja á svæðinu þar sem veikin kom upp þannig að tjón bænda þar sem veikin kemur upp getur orðið töluvert. Strax var brugðist við með bólusetningum sem bændur bera kostnað af. Þá þarf að bólusetja ásetningslömb framvegis þannig að kostnaður bænda við aðgerðirnar getur verið umtalsverður.
Varnaraðgerðir felast meðal annars í takmörkun á flutningi lifandi fjár og takmörkunum á samgangi. Eins eru takmarkanir á samnýtingu véla. Aðalvörnin er þó bólusetningin.