Sumarhiti á Skjaldþingsstöðum
Sumarhiti mældist víða á Austfjörðum í dag þrátt fyrir að á dagatalinu standi desember. Hæst fór hitinn í sextán stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði.Það var á fimmta tímanum í dag sem þessi hiti mældist í Vopnafirði en yfir tíu stiga hiti hefur verið síðan í morgun. Þar hefur einnig verið mjög hvasst, um 20 m/s í allan dag.
Hlýtt hefur verið víðar á svæðinu. Á Seyðisfirði mældist ríflega 14 stiga hiti í dag og 12 stiga hiti á Vatnsskarði.
Búist er við að hiti verði yfir frostmarki fram á gamlársdag en eftir það kólni.