Dýralæknamál: Ráðherra skoðar stöðuna á nýju ári
Ráðherra landbúnaðarmála mun skoða fjárveitingar til dýralæknamála þegar nýtt ár verður gengið í garð. Matvælastofnun hefur farið fram á aukið fjármagn en erfitt hefur reynst að manna dýralæknastöður á Austurlandi og í Þingeyjasýslum.„Menn munu setjast yfir málið á nýju ári," segir Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.
Matvælastofnun gerir þjónustusamninga við dýralækna um að vera til staðar í níu dreifbýlisumdæmum. Erfitt hefur reynst að manna stöður á svæðum 5 og 6, sem ná yfir Þingeyjasýslur og Mið-Austurland enda aðeins um 50% stöður að ræða.
Þannig hefur sú staða verið að dýraeigendur á mið-Austurlandi hafa ekki haft aðgang að dagþjónustu síðan um miðjan desember.
Matvælastofnun segir ástandið óviðunandi og hefur óskað eftir auknu fjármagni frá ráðuneytinu til að eiga auðveldara með þjónustusamningana.
Í samtali við Austurfrétt ítrekaði Þórir að ekki væri aukið fjármagn í dýralæknaþjónustuna á fjárlögum og því væri ekkert fast í hendi. Ráðherrann myndi hins vegar skoða málið strax á nýju ári.