Háalvarlegt mál þegar húsin kólna og atvinnulífið lamast út af rafmagnsleysi
Sveitarstjórn Breiðdalshrepps telur óásættanlegt RARIK þurfi að vera betur í stakk búið til að takast á skakkaföll en raunin var þegar sveitarfélagið var án rafmagns í sólarhring tíu dögum fyrir jól.Í bréfi sem sveitarstjórn samþykkti að senda stjórn og forstjóra RARIK er lýst þungum áhyggjum af því að RARIK hafi ekki verið betur undirbúið til að bregðast við óvæntri bilun en raun bar vitni þegar spennir í aðveitu stöð í Ormsstaði í Breiðdal gaf sig þann 15. desember.
„Það er háalvarlegt mál, þegar atvinnulífið lamast í heilan sólarhring og hitastig í húsum er komið niður fyrir 10 °C. Það felur í sér augljóst hættuástand," segir í bréfinu,
„Með öllu er óásættanlegt að íbúar þurfi að bíða jafn lengi eftir úrbótum og þá gerðist, eða í tæpan sólarhring."
Sveitarstjórnin segist hafa skilning á að upp komi óvæntar bilanir en þá þurfi að vera neyðaráætlanir til staðar þegar ástand skapist líkt og í Breiðdal. Þær felist meðal annars í upplýsingagjöf til íbúa.
Þá gerir sveitarstjórnin kröfu um að vararafstöð sé á staðnum og færanleg rafstöð á Austfjörðum. Stöðin sem geymd var á Fáskrúðsfirði var send til Þórshafnar í haust.
„Slík færanleg vararafstöð hefði í þessu tilviki tryggt nauðsynlegt varaafl í Breiðdalshreppi, þar sem aðrar leiðir voru ekki færar. Ef vararafstöð hefði verið aðgengileg hér fyrir austan hefðu Breiðdælingar fengið rafmagn allt að 17 tímum fyrr en varð.
Sveitarstjórnin óskar eftir að RARIK geri skriflega grein fyrir hvenær vænta megi varaflstöðvar á Breiðdalsvík og en einnig upplýsingum um ástand dreifikerfis rafmagns í sveitarfélaginu.