Tónlistarlífið breytist ekki: Tekjur af netspilun ágætis búbót
Milliliðir í tónlistarbransanum vilja alltaf fá sinn skerf þótt umhverfið sé að breytast með tilkomu streymis tónlistar yfir netið. Austfirðingur sem gefur tónlist sína út sjálfur segir tekjur frá netveitum eins og Spotify ágætis viðbót.„Tónlistarmannalífið er ekkert að breytast. Ég fæ kannski 10-20 þúsund kall frá STEF á ári fyrir útvarpsspilun, VOD og fleira þannig að þessi 40 þúsund kall frá netveitunum er smá viðbót," segir Halldór Warén, tónlistarmaður á Egilsstöðum.
„Þá hljóta aðrir stærri spámenn að fá svipað hlutfall þar sem tónlistin sem ég gef út er ekki sú sem spiluð er mest en líklegt er að útgáfurnar séu að hirða það."
Í Morgunblaðinu í gær var fjallað um áhrif netveita og sagt að minnkandi plötusala valdi því að minna fjármagn sé til staðar til að styðja við grasrótina, plötuútgáfu efnilegra hljómsveita. Þar er rætt við Lárus Jóhannesson, sem situr í stjórn Félags íslenskra plötuútgefenda auk þess að vera meðeigandi að 12 tónum
Halldór deildi greininni á Facebook með eftirfarandi orðum: „Tekjurnar okkar urðu á sínum tíma eftir hjá Lárusi og 12 tónum. Og eru þar enn - hver er munurinn?"
Halldór, sem gefur út undir merkjum Warén Music, segist hafa notað tækifærið til að „skjóta aðeins" á Lárus þegar hann sá fyrirsögnina. Alvarleiki býr þó að baki gríninu.
Milliliðirnir standa í því leiðinlega
„Ég hef það fyrir sið að um leið og menn panta fleiri eintök frá mér þá borgi þeir síðasta reikning. Þetta eru engar stórar upphæðir en þeir skulda mér einhverja þúsund kalla, þeir hefðu ekki pantað meira nema að því diskarnir voru seldir.
Milliliðirnir, eins og útgáfufyrirtækin, standa í þessu leiðinlega sem við tónlistarmennirnir nennum ekki. Ég er báðum megin við borðið og fæ annað slagið símtal hvort Warén Music viljið gefa út tónlistina, þ.e. búa til diska koma þeim á framfæri og svo framvegis.
Mér finnst það fínt við tónlist sem ég kem beint að en þetta er mikið hark fyrir sama og ekkert nema ánægjuna og þá er eins gott að það sé innistæða fyrir ánægjunni því hjá mér felst það í að koma beint að því að skapa tónlistina."
Plötufyrirtækin hafa alltaf viljað fá sitt
Warén Music er búin að gefa út fimm hljómplötur en platan „Bíum, bíum" sem inniheldur 24 íslensk barnalög leikin á spiladós er sú afurð Warén Music sem selst hefur mest í plötubúðum og verið streymt á netinu.
„Umhverfið er annað og veröldin er að breytast en plötufyrirtækin hafa alltaf viljað fá sitt. Það er svo sem eðlilegt, þau leggja oft í mikinn kostnað við upptökur, dreifingu og markaðssetningu þannig að samningar eru gerðir til að ná upp í kostnað en svo stoppar það ekkert endilega þar og það er þá sem listamaðurinn er hlunnfarinn. Það er dýrt að gefa út.
En um leið er skrýtið að útgáfufyrirtækin, sem oft eru byggð upp fyrst og fremst sem viðskiptamódel þar sem excelapar leika lausum hala, séu ekki búin að finna leiðir til að módelið gangi upp.
Við þekkjum það frá því í gamla daga að menn seldu fullt af plötum en komu fátækir út," segir Halldór.
Eitt besta dæmið segir hann í heimildarmyndinni „Searching for Sugarman" þar sem fjallað er um bandarískan tónlistarmann sem öðlast vinsældir í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnuna en veit ekkert um það fyrr en eftir að hún líður undir lok.
Kemur ekki niður á grasrótarútgáfu
„Ef þú ætlar alla leið að við upptökur, kynningu, þá kostar það mikið. Stundum mistekst útgáfan þannig þetta er eins og að detta niður á stóra vinninginn plús hrikalega mikil vinna. Það væri hægt að ræða þetta út í hið óendanlega.
Ég myndi samt ekki segja að þetta komi niður á grasrótarútgáfunni. Þvert á móti vinnur netvæðingin með grasrótinni sem á auðveldara með að gefa út. Hráleikinn og frumkrafturinn er til staðar áður en fleiri eyru og puttar fara að hafa skoðun á tónlistinni og breyta eftir lögum og reglum. Svo kannski ef nógu margir fíla tónlistina þína þá ferðu að ná í aura hingað og þangað.
Þetta á alveg að virka eins og þegar menn lifa á því að búa til tölvuleikjamyndbönd á YouTube. Það er bara eins og einn góður Héraðsmaður sagði það á bara eftir að finna það upp!"