Mesti hiti sem mælst hefur milli jóla og nýárs hérlendis
Tvö hitamet voru sett milli jóla og nýárs á veðurstöðinni á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Hiti í mánuðinum var annars í meðallagi á Austurlandi.Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands yfir tíðarfar á landinu í desember.
Þann 29. desember mældist 16 stiga hiti á Skjaldþingsstöðum. Það er nýtt landsdægurmet og raunar hæsti hiti sem mælst hefur hérlendis á milli jóla og nýárs.
Þá mældist 14,5 stiga hiti þar morguninn eftir sem einnig er dægurmet fyrir 30. desember.
En mesti hitinn mældist ekki bara eystra heldur einnig sá lægsti. Lægsti meðalhiti í byggð í mánuðinum var í Möðrudal á Fjöllum, -4,6 stig og þar var lægsti hiti í byggð, -19,8 á aðfangadag og jóladag.
Þá mældist lægsti hiti á landinu -20,7 stig á Brúarjökli þann 12. desember.
Í samantektinni kemur fram að meðalhitinn á austfirskum veðurstöðvum hafi annars verið í meðallagi, mánuðurinn fremur úrkomusamur og úrkoma og snjór yfir meðallagi.