26 opinber störf töpuðust í hruninu á Austurlandi: Mest skorið niður hjá HSA

seydisfjordur april2014 0006 webÁrsverkum ríkisins á Austurlandi fækkaði um tæp 26 á árabilinu 2007-2011. Niðurskurðurinn kom harðast niður á Heilbrigðisstofnun Austurlands og bitnaði fremur á konum en körlum.

Þetta kemur fram í skýrslunni „Breytingar á fjölda ríkisstarfsmanna í kjölfar efnahagshrunsins" sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út í apríl 2013. Vísað var til skýrslunnar í umræðum á Alþingi fyrir jól í svari sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra við fyrirspurn um þróun opinberra starfa á landsbyggðinni á árunum 2007-2014.

Í skýrslunni kemur fram að ársverkum ríkisins hafi fækkað á Austurlandi um tæp 26 árin 2007-2011 sem séu 0,29% af 16-74 ára íbúum á svæðinu. Til samanburðar fjölgaði ársverkum á landinu í heild um 0,09% hjá fólki á sama aldri.

Flest stöðugildi töpuðust hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, 17,4, 7,7 hjá Menntaskólanum á Egilsstöðum, 7,3 hjá sýslumanninum á Seyðisfirði og 4,4 hjá sýslumanninum á Eskifirði.

Flest störf bættust við hjá Verkmenntaskóla Austurland 6,9 og í framhaldsfræðslu 4,5. Í skýrslunni segir að mögulega hafi þeir sem misst hafi vinnuna hjá Menntaskólanum á Egilsstöðum og starfsstöð Háskóla Íslands getað fengið vinnu þar.

Konurnar fluttu frá Seyðisfirði

Flest stöðugildin sem töpuðust innan HSA voru í Neskaupstað, 6,27, 4,4 tilheyrðu Djúpavogi eða Breiðdalsvík og 4,58 flokkuðust sem sameiginleg. Niðurskurðurinn kom verst niður á ófaglærðum og haft er eftir stjórnanda hjá HSA að hann hafi leitt til þjónustuskerðingar.

Í skýrslunni kemur fram að fækkunin hafi orðið mest á Egilsstaði og Seyðisfirði og ársverkum kvenna fækkað frekar en ársverkum karla. Hjá stofnunum þremur þar sem fækkaði mest voru 29 ársverk skorin af, þar af 26 ársverk kvenna.

„Sérstaklega er munurinn mikill hjá Heilbrigðisstofnun Austfjarða þar sem ársverkum kvenna hefur fækkað um tæp 16 en ársverkum karla fjölgað um tæp 2," segir orðrétt í skýrslunni en þar er átt við stofnunina í heild sinni.

Í skýrslunni eru leiddar líkur af því að niðurskurðurinn hafi komið niður á íbúaþróun á Seyðisfirði þar sem tölur um atvinnuleysi bendi til þess að konurnar sem misstu vinnuna hafi flutt af svæðinu.

Þá virðist hærri atvinnuleysistölur meðal kvenna en karla á Fljótsdalshéraði benda til þess að niðurskurðurinn hafi einnig haft áhrif á vinnumarkaðinn þar.

Niðurskurður getur ógnað öryggi íbúa

Sá fyrirvari er gerður við tölurnar að framkvæmdum við Kárahnjúka hafi lokið í árslok 2007. Það komi meðal annars fram í hærri meðalaldri þar sem farandverkamenn sem störfuðu við framkvæmdirnar hafi flestir verið 37-40 ára.

Ríkisstarfsmönnum fækkaði mun minna en íbúum svæðisins á tímabilinu 2007-2011 og atvinnuleysi á Austurlandi var undir landsmeðaltali.

Þá er bent á að niðurskurður hjá HSA þýði að íbúar þurfi að leita sér þjónustu á Akureyri eða í Reykjavík sem hafi í för með sér töluverða útgjaldaaukningu, að því gefnu að allar leiðir séu færar. „Því getur niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Austfjarða skapað mikla hættu og óöryggi fyrir íbúa á svæðinu."

Niðurstaðan er að fækkun ársverka hjá ríkinu hafi varla skipt sköpum fyrir hagvöxt á svæðinu en öðru kunni að gegna um niðurskurð í þjónustu ríkisins.

Von á frekari greiningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði athugasemd við skýrsluna og taldi að upplýsingar í henni væru ekki í samræmi við upplýsingar úr bókhaldi ríkisins. Breytingar á starfsmannafjölda gætu skýrst af breytingum á starfsemi ríkisins, til dæmis flutnings verkefna frá ríki til sveitarfélaga eða hlutafélaga.

Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur fram að unnið sé að því að taka saman fjölda stöðugilda hjá ríkinu eftir svæðum miðað við síðustu áramót. Von sé á þeim tölum innan skamms.

Vandasamt sé þó að greina upplýsingarnar, meðal annars vegna þess að staðsetning starfa virðist skráð með mismunandi hætti. Þannig séu til dæmis öll störf presta skráð hjá Biskupsstofu í Reykjavík og öll störf hjá Matvælastofnun eru skráð á Selfossi þó svo að stofnunin reki starfsstöðvar víða um land.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.