Aðalsteinn Jónsson landaði fyrstu loðnunni á Austfjörðum
Aðalsteinn Jónsson, skip Eskju, kom með fyrstu loðnuna sem landað er á Austfjörðum. Skipið kom inn til Eskifjarðar um átta leytið í gærkvöldi með 1195 tonn.„Þetta er ágætis loðna að sjá en við erum reyndar ekki byrjaðir að vinna hana," segir Haukur Jónsson, verksmiðjustjóri hjá Eskju.
Aðalsteinn stoppaði aðeins í 5-6 tíma til að landa en hélt síðan rakleitt á miðin aftur. Loðnuveiðiskipin eru að veiðum fyrir norðan land.
Loðnan verður brædd en ekki verður byrjað að vinna fyrr en á morgun. Austfirskur bræðslumenn sitja í dag starfsfræðslunámskeið á Reyðarfirði.
Þá er Jón Kjartansson væntanlegur til Eskifjarðar í kvöld með 900 tonn af kolmunna.