Alcoa hafnar ásökunum Sjómannafélags Íslands um að grafa undan íslenskum sjómönnum

uta rfj 0001 webAlcoa Fjarðaál hafnar því að fyrirtækið grafi undan íslenskum sjómönnum með samningum um sjóflutninga. Fyrirtækið var sakað um óásættanlega viðskiptahætti á aðalfundi Sjómannafélags Íslands fyrir skemmstu.

Í ályktun fundarins eru Rio Tinto Alcan og Alcoa Fjarðaál sögð semja við „hentifánaspekúlanta sem stefni öryggi á hafinu í tvísýnu með afdönkuðum ryðkláfum" og sjómönnum sem þekki „lítt eða ekkert til siglinga" í Norður-Atlantshafi „eins og dæmin sanni.

„Siðblindir spekúlantar brjóta á réttindum manna og stefna öryggi í tvísýnu í skjóli álveranna í Straumsvík og á Reyðarfirði. Það er óásættanlegt að alþjóðlegir auðhringar, sem hafa hringað um sig hér á landi og nýta auðlindir þjóðarinnar, grafi undan íslenskri sjómannastétt og stefni öryggi á hafinu í tvísýnu."

Þess er krafist að „erlendir auðhringar sem nýta íslenskar orkulindir virði rétt sjómanna til jafns við aðra starfsmenn sem skapa verðmæti á grundvelli náttúruauðlinda þjóðarinnar" og að stjórnvöld grípi inn í „þá ósvinnu sem nú viðgengst."

Í yfirlýsingu Fjarðaáls í kjölfar fyrirspurna Austurfréttar um málið segir að samningur við erlent skipafélag sé „eðlilegur þáttur alþjóðaviðskipta." Hann hafi verið gerður á evrópska efnahagssvæðinu og nái til flutninga fyrir þrjú álver Alcoa: Fjarðaál og svo tvö í Noregi.

Stöðugt sé leitað leiða til að auka hagkvæmni í rekstri og séu skipaflutningarnir stór þáttur í þeirri viðleitni. Þeir hafi verið boðnir út árið 2013 þegar samningar við Samskip og Eimskip runnu út og óskað eftir tilboðum „í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti."

Niðurstaðan hafi verið sú að taka tilboði skipafélagsins CargoW sem skráð er í Hollandi en er að hálfu í eigu íslensku flutningamiðlunarinnar Thorship í Hafnarfirði.

„Alcoa gerir mjög strangar kröfur til allra þjónustuaðila sem fyrirtækið semur við. Það á jafnt við um þá verktaka sem sjá um sjóflutninga, ráðgjafarfyrirtæki eða verktaka sem starfa í álverunum og á starfsvæðum álveranna," segir í yfirlýsingunni.

Hvað vitneskju Alcoa varðar þá hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að ásakanir Sjómannafélags Íslands eigi við rök að styðjast. Skipafélagið hefur sinnt þjónustu við Alcoa í samræmi við skilmála samningsins. Að öðru leyti er það skipafélagsins að svara til um rekstur félagsins og viðeigandi eftirlitsstofnana að sjá til þess að lögum og reglum sé fylgt."

Skipið Uta, sem kyrrsett var á Reyðarfirði í sumar, var í siglingum fyrir Alcoa á vegum CargoW. Fyrirtækið leigði það af þýsku skipafélagi sem varð gjaldþrota.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.