Fjarðarheiðargöng: 70 milljónir í frekari rannsóknir
Gert er ráð fyrir að sjötíu milljónum verði varið í frekari rannsóknar fyrir Fjarðarheiðargöng á þessu ári. Seyðfirðingar fagna því að verkið haldi áfram.„Menn fagna þessum fjármunum því þetta er í samræmi við þá rannsóknaráætlun sem Vegagerðin hefur lagt fram um verkið," segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði.
Við lokaumræðu fjárlaga var 70 milljónum króna ráðstafað í frekari rannsóknir. „Það er ekki búið að ákveða hvernig þeim verður varið, hvort peningurinn fer í boranir eða eitthvað annað," segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Borað var í miðri heiði síðasta sumar en borinn festist og komst þó ekki jafn neðarlega og áætlað var. Í samtali við Austurfrétt í dag sagði G. Pétur að niðurstöður þeirra rannsókna lægju ekki fyrir.
Seyðfirðingar hafa á móti barist fyrir því að Fjarðarheiðagöng verði sett á samgönguáætlun. Vilhjálmur vonast til að það takist en ekki hafa enn verið birt drög að nýrri áætlun.