Tæknidagur fjölskyldunnar 2015
Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 10. október. Dagurinn er sem fyrr tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa.Tæknidagarnir í fyrra og hittiðfyrra hafa tekist með eindæmum vel en áætlaður fjöldi gesta í fyrra var um sjö hundruð manns. Þetta er í þriðja sinn sem Austurbrú ses. og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja daginn en markmiðið með Tæknidegi fjölskyldunnar er sem fyrr að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda um leið og öll fjölskyldan skemmtir sér saman.
Tæknidagur fjölskyldunnar 2015 verður með svipuðu sniði og áður. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi sýnir allskyns tæknilausnir, gestir fá að kynnast landmótun í þrívídd í mögnuðum „sandkassa", reykköfun og brunavörnum, rafknúnum kappakstursbílum frá HR og HÍ, rafmagnseinhjólum og Segway-hjólum auk þess sem gestir geta lært grunnatriði í málmsuðu.
Fab Lab Austurland verður að sjálfsögðu opið í tilefni dagsins en það var einmitt formlega tekið í notkun á Tæknideginum í fyrra. Þá munu félagar í Sprengjugengi Háskóla Íslands mæta með Sprengju-Kötu í broddi fylkingar en sýningar Sprengjugengisins hafa ætíð vakið lukku hjá ungum sem öldnum. Einnig verður boðið upp á skoðunarferð í nýsprengd Norðfjarðargöng.
Þetta og margt fleira verður á Tæknideginum 2015 en dagskrána má sjá hér. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.
Þetta og margt fleira verður á Tæknideginum 2015 en dagskrána má sjá hér. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.