Vilja málefnalegt blað án eineltis og „druslustimplunar"
„Við vonumst eftir almennri hugarfarsbreytingu gagnvart Pésanum meðal nemenda og samhug um útgáfu málefnalegs blaðs sem ekki ýtir undir einelti eða „slutshaming", segir Rebekka Karlsdóttir.Málþing um Pésann, skólablað Menntaskólans á Egilsstöðum verður haldið í hátíðarsal skólans í kvöld. Það eru nemendafélagið (NME), feministafélgið (FeME) og ritnefnd Pésans sem standa fyrir þinginu.
Rebekka Karlsdóttir er formaður NME.
„Okkur finnst Pésinn í núverandi mynd úrelt hugtak og þá sérstaklega í ljósi mikillar vitundarvakningar varðandi „druslustimplun" (sluth-shame) og annað slíkt undandarin misseri.
Þegar þessi umræða var hins vegar tekin upp áttuðum við okkur á því að það var ekki almennur vilji meðal nemenda skólans að leggja blaðið niður eða breyta því, en hann er hins vegar afgerandi meðal fyrrum nemenda.
Þegar málið var svo rætt á fundi FeME fundi (femínistafélag ME) var ákveðið að halda málþingið í samstarfi við þá sem að Pésanum koma, þ.e. nemendaráðið og ritnefndina.
Viðbrögðin hafa verið mun meiri en við bjuggumst við, en margir hafa stigið fram og sagt sína reynslu af Pésanum, bæði góða og slæma, en með málþinginu viljum við heyra sem frá flestum og fá fram ólík sjónarhorn og skoðanir.
Í kjölfarið verður málið tekið upp í nemendaráðinu þar sem lokaákvörðun verður tekin – en við vonumst til þess að almenn hugarfarsbreyting gagnvart Pésanum verði meðal nemenda og samhugur um útgáfu málefnalegs blaðs sem ekki ýtir undir einelti eða „slutshaming".
Hvar var allt fullorðna fólkið?
Esther Ösp Gunnarsdóttir er ein þeirra sem hefur tjáð sig um málið, en hún útskrifaðist úr skólanum fyrir tólf árum. Í Facebook-færslu sinni segir Esther Ösp meðal annars:
„Ég held að við sem vorum í skólanum á þessum tíma, bæði nemendur og kennarar, hljótum að hafa verið hálf meðvitundarlaus. Það var alltof lítið rætt um einelti, líðan nemenda og hugtök eins og „slut-shaming" voru ekki til.
Af þeim stóra hópi sem kom að útgáfunni á mínum árum í skólanum efast ég líka um að nokkur hafi skilið hugtök eins og „ritstjórnarlega ábyrgð" eða „meiðyrði". Ég get auðvitað ekki talað fyrir neinn nema sjálfa mig en ég held að fæstir hafi (a.m.k. meðvitað eða viljandi) ætlað sér að nýðast á öðrum eða leggja í einelti í Pésanum.
Síður Pésans eru samt sem áður endalaus tækifæri fyrir þá sem ætla sér að meiða. Ég er hrædd um að hefðin fyrir því að gefa út svona blað og skortur á fræðslu fyrir óþroskaða unglinga hafi stjórnað öllu hvað Pésann varðar. Það eru hættulegar aðstæður til að gefa út blað í enda varð útkoman ekki glæsileg.
Þegar ég hugsa til baka til Pésans núna, sjálf orðin fullorðin og vonandi talsvert skynsamari, þá skil ég heldur ekki hvar allt fullorðna fólkið var: Kennarar, foreldrar og skólastjórnendur.
Fólkið sem við þurfum stundum að treysta á að grípi fram fyrir hendurnar á þeim yngri. Af hverju í ósköpunum var útgáfa Pésans ekki stoppuð fyrir mörgum árum? Voru allir svona meðvirkir í hefðinni fyrir þessari útgáfu eða einhverri hugmynd um „menntaskólahúmor"? Eða vantaði líka fræðslu um þessi mál fyrir fullorðna?
Í dag vitum við öll betur. Við vitum hvaða afleiðingar svona útgáfa hefur á líðan og andlega heilsu menntskælinga. Þeir eru sem betur fer miklu klárari í þessum málum en ég og mínir samnemendur voru. Þetta málþing er góður vitnisburður um það.
Ég vona að málþingið verði vel sótt og þar verði rætt í fullri alvöru um þetta grínblað. Það er nefnilega voðalega lítið grín, þegar betur er að gáð. Ég vona líka að nemendur í ME haldi áfram að gefa út blöð en að efni þeirra verði allt annað en það sem hefð er fyrir í Pésanum.
Að endingu vil ég síðan biðjast afsökunar á mínum þætti í þessu blaði. Mér líður illa að vita hvað það hefur valdið mörgu af því frábæra fólki sem var samferða mér í ME vanlíðan."
Rebekka hvetur alla til þess að mæta á fundinn. „Gamlir nemendur verða með innslög og svo viljum við heyra þína skoðun á þessu blaði okkar ME-inga. Allir eru velkomnir og hvattir til þess að mæta – ekki bara nemendur, kennarar, fyrrverandi nemendur, foreldrar og aðrir sem hafa áhuga á að mæta og segja sínar skoðanir."