Aðeins rúmlega 11% fjármagns Vegagerðar farið austur á land
Af heildarfjármagni Vegagerðarinnar til framkvæmda, viðhalds og þjónustu á vegakerfinu fyrstu ellefu mánuði ársins hefur Austurland aðeins fengið rétt rúmlega ellefu prósent.
Þetta hefur Austurfrétt fengið staðfest hjá Vegagerðinni en eins og lesendum er kunnugt var töluverð óánægja meðal margra íbúa með þjónustu stofnunarinnar síðasta vetur. Takmarkaður snjómokstur á mörgum leiðum eins og til að mynda til og frá Borgarfirði eystra svo eitt dæmi sé tekið. Sveitarstjóri Múlaþings hefur átt samtöl við Vegagerðina vegna þessa í haust og vetur.
Í svari við fyrirspurn kemur fram að fyrstu ellefu mánuði þessa árs fóru rúmlega 3,7 milljarðar króna til framkvæmda, viðhalds og þjónustu á vegum Austurlands en alls hefur kostnaður Vegagerðarinnar við slíkt á landsvísu fyrstu ellefu mánuðina numið tæpum 32 milljörðum alls. Hlutfall Austurlands því einungis 11,5 prósent.