Aðeins rúmlega 200 fjár-, kúa eða nautgripabú eftir á Austurlandi
Ekkert lát virðist á fækkun fjölda sauðfjár-, kúa- og nautgripabúa hérlendis en sú þróun hefur átt sér stað linnulítið frá síðustu aldamótum. Einungis 229 slík bú voru skráð á Austurlandi öllu í lok árs 2020.
Þetta er meðal þess sem lesa má út úr samantekt Hagstofu Íslands um rekstur og efnahag í fimm greinum landbúnaðar frá árinu 2008 til 2020 sem stofnunin birti í vikunni. Í lok 2020 var heildarfjöldi sauðfjár, kúa- og nautagripabúa í landinu öllu einungis 2.421 talsins og hafði fækkað um tæplega 400 frá árinu 2008.
Stór ástæða fækkunar búa eru lágar tekjur bænda sem landbúnað stunda en meðaltekjur í sauðfjárrækt eru með því allra lægsta. Það kemur líka fram í yfirliti Hagstofunnar en samkvæmt þeirra útreikningum hafa tekjur í landbúnaði nánast staðið í stað frá árinu 2016. Aðeins einu sinni frá 2008 jukust tekjur bænda, milli áranna 2019 og 2020, og einungis um eitt prósent.
Flest sauðfjár- kúa- og nautagripabú finnast á Suðurlandinu eða 568 talsins. 436 finnast á Norðurlandi vestra, 408 á Norðurlandi eystra og 330 alls á Vesturlandi.