Gangsetja þarf atvinnuuppbyggingarverkefni á Seyðisfirði að nýju
Rík óvissa um hvort og með hvaða hætti hægt verður að nýta húsnæði Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði auk þess sem umboð það er starfshópur sá sem settur var á stofn til að koma fram með hugmyndir að atvinnuuppbyggingu í bænum til framtíðar var óljóst mjög eru ástæður þess að vænlegast er talið að gangsetja það verkefni upp á nýtt.
Þetta eru meginástæður þess hve lítið hefur gerst með þær fjölmörgu hugmyndir sem fram komu þegar Múlaþing setti á fót sérstakan verkefnahóp um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði í kjölfar lokunar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar snemma árs 2024 en sú lokun var reiðarslag fyrir lítið bæjarfélagið.
Starfshópnum var ætlað að vinna úr fjölmörgum hugmyndum sem fram komu í kjölfarið í því skyni að styrkja atvinnulífið til framtíðar í ljósi breyttra aðstæðna og voru forsvarsmenn Síldarvinnslunnar, auk annarra, áhugasamir að koma að því verkefni.
Hve lítið hefur gerst síðan var tilefni töluverðra umræðna á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings en ekki bætti úr skák fyrir Seyðfirðinga að Síldarvinnslan tilkynnti í september síðastliðnum að útgerð Gullvers verði jafnframt hætt innan tíðar.
Endurskoða þarf umboð starfshópsins
Sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, var spurð út í gang verkefnisins á sveitarstjórnarfundinum en hún, auk forseta sveitarstjórnar og formanns byggðaráðs, funduðu með framkvæmdastjóra Síldarvinnslunar vegna þessa fyrir skömmu. Í svari sveitarstjórans kom fram að eitt og annað hefði orðið þess valdandi að allt hefur dregist á langinn.
„Það var ekkert ákveðið á þessum fundi en gott að byrja samtalið einhvers staðar og ljóst að það er áhugi hjá [Síldarvinnslunni] að koma að málum á Seyðisfirði en ekki búið að leggja niður nákvæmlega hvernig það verður. Varðandi starfshópinn þá þurfum við að taka það samtal inn í byggðaráði. Það voru tveir aðilar sem voru skipaðir í þennan hóp úr stjórnsýslunni eru hættir störfum þannig að það þarf kannski að endurskoða hvernig skipað var í hann, hverjir eiga að vera í honum og hvaða umboð þessi hópur á að hafa. Ég held að það hafi verið það sem fór aðeins úrskeiðis með þennan hóp, sem vissulega vann mjög góða vinnu, en það kom í ljós að það var kannski ekki alveg umboð til staðar hvað varðaði að útfæra hugmyndir og óljóst hvaða fjármagnið átti að koma. Ég held að við þurfum aðeins að gangsetja þetta verkefni upp á nýtt og vera þá með skýrt umboð.“
Margvíslegar hindranir
Sveitarstjórnarfulltrúinn Ásrún Mjöll Stefánsdóttir vildi í kjölfarið vita nákvæmlega á hverju hefði strandað og hvers vegna fjármögnun væri ekki ljós því skýrt hefði komið fram á sínum tíma vilji forsvarsmanna Síldarvinnslunnar að koma að fjármögnun nýrra verkefna í bænum. Forseti sveitarstjórnar, Jónína Brynjólfsdóttir, svaraði því til að ástæðurnar væru af ýmsum toga.
„Þar sem málið í raun og vera strandar snýst meira um húsnæði því Síldarvinnslan á húsnæði þarna á svæðinu sem er á ofanflóðahættusvæði. Það er búið að vera í vinnslu í svolítinn tíma mat á því húsnæði. Það er að segja hvað þyrfti að gera við það húsnæði svo hægt yrði að vinna í því eða breyta því undir aðra aðstöðu og heilmikill tími fór í það. Svo er þetta debatt við ríkið varðandi húsnæði á ofanflóðahættusvæði. Það má segja að það sé lagalega óskýrt af því að í reglugerð um uppkaup á húsnæði á ofanflóðasvæðum þá skilja þeir atvinnuhúsnæði eftir en lögin taka ekki á því. Þannig að það getur verið að það sé ekki lagalega nógu skýrt af hálfu ríkisins að undanskilja atvinnuhúsnæði frá uppkaupum á ofanflóðahættusvæðum en það er eitthvað sem hefur verið í skoðun. Þannig að það er ekki aðeins og að tillögur hafi komið fram og þeim ekkert fylgt eftir. Það var auðvitað verið að vinna áfram í nokkrum málum þarna en svo kemur inn þessi breyta sem bættist við þegar þeir hætta með starfsemi Gullvers sem skapaði þrýsting á að hraða þessu. Þannig að ég held að það sé alveg ljós að eins og sveitarstjóri kom inn á að við þurfum bara að bretta upp ermar, dusta rykið og halda áfram að endurskipa starfshópinn og skýra þá alveg hver markmiðin eiga að vera og hvernig eigi að ná þeim fram. Á meðan þetta allt var ekki ljóst þá var var verið að bíða niðurstöðu á þessu og ekkert hægt að halda áfram.“
Bjartsýni þrátt fyrir allt
Sveitarstjórnarfulltrúinn Þröstur Jónsson steig í pontu í kjölfarið, en hann átti einmitt sæti í starfshópnum sem um ræðir, og benti á hve óvissuþátturinn varðandi húsnæði Síldarvinnslunar væri mikill. Það skipti miklu máli því sú hugmynd sem best var tekið í af hálfu hópsins var fjölbreytt starfsemi í því húsi í framtíðinni.
„Það var alltaf, og held ég ennþá, vilji hjá Síldarvinnslunni að koma að þessu og forseti sveitarstjórnar nefndi það réttilega að styrinn stæði dálítið um þetta hús sem er alveg rétt. Það er búið að meta hvað það kostar að gera varnir þarna fyrir ofan og deilt um það hvort það sé þess virði að fara í slíkt. Menn setja líka spurningarmerki við þær varnir vegna þess að þær taka ekki á hættum ofan úr Strandatindi þar sem er sífreri. Varnir gætu því verið gagnslausar og ég held ég megi segja að það var mikið talað um að fá rannsóknarniðurstöðu um hver hættan væri ofan úr þessum tindi. Það verður að segja að þau svör sem koma frá þeim aðilum eins og Veðurstofunni eru mjög loðin. Sjálfur er ég tiltölulega bjartsýnn því það voru þarna stórar hugmyndir sem voru býsna raunverulegar og ég myndi halda að mynda stórbreyta atvinnulífi á Seyðisfirði ef þær raungerast.“