Skip to main content

Aðeins sex umsagnir um sameiningu Landgræðslu og Skógræktar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2023 10:15Uppfært 07. feb 2023 09:39

Engar umsagnir um fyrirhugað frumvarp matvælaráðherra um að sameina Landgræðsluna og Skógræktina komu frá Austurlandi innan tilskilins frests. Þær sex umsagnir sem bárust eru meira og minna jákvæðar.

Ráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur er nú með umsagnir þessar í vinnslu en frestur til að koma athugasemdum eða sjónarmiðum á framfæri rann út þann 1. febrúar síðastliðinn. Athygli vekur að engar þeirra komu frá Austfirðingum þó bæði Félag skógarbænda á Austurlandi (FSA) og síðar heimastjórn Fljótsdalshéraðs hafi lýst vissum áhyggjum af þessum áætlunum. Þar helst að stjórn nýrrar stofnunar flytjist hugsanlega annað en Skógræktin er eina ríkisstofnunin sem staðsett er á Austurlandi og ein örfárra á landsbyggðinni allri. Bæði FSA og fyrirtækið Skógarafurðir settu fram sín sjónarmið á fyrri stigum málsins í októbermánuði.

Meðal þeirra sem lýsa blessun yfir hugmyndina á þessum lokametrum má nefna Landvernd sem hefur áður bent á kosti slíkrar sameiningar. Samtök atvinnulífsins styðja hugmyndina heils hugar og sama gerir nýtt félag sem nefndist Vinir íslenskrar náttúru en þar er í forsvari Sveinn Runólfsson fyrrum forstjóri Landgræðslunnar. Bændasamtökin lýsa ánægju með sameiningu og sömuleiðis Ólafur S. Andrésson lífefnafræðingur og fyrrum prófessor. Þá sér byggðaráð Skagafjarðar mikil og góð tækifæri við sameiningu sem bendir matvælaráðuneytinu á þau fjölmörgu tækifæri sem skapast í Skagafirði með þessum gjörningi.

Blómleg skógrækt í Jökuldal eins og víða annars staðar á Austurlandi. Mynd Pétur Halldórsson/Skógræktin