Áfall Vestmanneyinga var áfall þjóðarinnar allrar

Austfirðingar fylgdust eins og aðrir Íslendingar skefldir með þegar eldgos braust upp í Heimaey fyrir sléttum 50 árum. Vestmannaeyingar, sem þurftu að flýja heimabyggð sína, dreifðust í kjölfarið víða um land og hús risu fyrir tilstuðlan Viðlagasjóðs.

Þetta má lesa út úr umfjöllunum Austurlands, málgagns Alþýðubandalagsins í Neskaupstað, í gegnum árið 1973.

Austurland kom út 26. janúar, þremur dögum eftir að gosið hófst, og fjallar þá um að þótt jarðeldarnir bitni harðast á Eyjamönnum þá séu þeir ekki einkamál þeirra heldur tjón þjóðarinnar allrar.

Rakið er að Vestmannaeyjar séu langstærsta verstöð landsins og standi að baki miklum hluta útflutnings þjóðarinnar. Austurland kallar eftir því að leitast verði við að draga úr áhrifum hamfaranna og reynt að nýta flota Eyjamanna sé ekki hægt að gera út frá Eyjum. Mikilvægt sé að bregðast skjótt við þar sem loðnuvertíð sé að hefjast.

Á forsíðunni eru einnig molar þar sem sagt er frá því að 100 krónum verði bætt við miðaverð á þorrablót Alþýðubandalagsins daginn eftir til að styrkja Vestmanneyinga. Þá undirbúi bæjarstjórnin almenna fjársöfnun í samstarfi við félagasamtök.

Félagar í Lions votta Vestmanneyingum samúð sína og lýsa sig reiðubúna til aðstoðar við „þetta hughrausta fólk“ eftir sinni getu. Klúbburinn áformar fjársöfnun með öðrum Lionsklúbbum landsins.

Í næstu blöðum á eftir er sagt frá eldgosinu, aðallega viðbrögðum stjórnvalda til að hjálpa Eyjamönnum. Blaðið ver ríkisstjórnina enda Alþýðubandalagið aðili að henni og bregst hart við gagnrýni á vinnubrögð hennar.

Viðlagasjóðshús á nokkrum stöðum

Í byrjun apríl má lesa um að flestir þeirra sem flúðu Vestmannaeyjar séu við Faxaflóa en allnokkrir hafi dreifst um landsbyggðina. Nokkrar fjölskyldur séu komnar til Neskaupstaðar og fleiri væntanlega.

Það helsta sem standi í vegi fyrir því að taka á móti fleira fólki sé húsnæðisskortur, sem sé slæmt því fólk vanti til starfa. Greint er frá því að byrjað sé að flytja inn erlend hús til að hýsa Eyjamenn og hafi Norðfirðingar meðal annars boðist til að taka við þeim. Fyrirhugað sé að reisa fimmtán slík á nýju svæði úti á Bökkum.

„Það væri því ekki lítils virði fyrir okkur ef hingað flyttust 10-20 fjölskyldur frá Eyjum og þessar fjölskyldur fengju hús frá Viðlagasjóði til reisa hér,“ skrifar Kristinn Jóhannsson á forsíðu blaðsins en bætir við að best sé ef fólkið geti snúið aftur til síns heima.

Goslokum var lýst yfir 3. júlí. Rúmum mánuði síðar koma átta norsk hús, styrkt af Viðlagasjóði, til Norðfjarðar. Í skeytum til Austurlands má lesa um fleiri sem hafi verið reist eystra, til að mynda fjögur á Seyðisfirði og 20 á Höfn í Hornafirði.

Almennt er mikið líf í framkvæmdum eystra á þessum tíma. Vinna er næg og á mörgum stöðum nefnt að húsnæði skorti til að geta gripið tækifærin. Er sú staðan fyrir 50 árum því lík þeirri sem uppi hefur verið á Austurlandi síðustu misseri. Fréttaritari á Djúpavogi segir að þar sé fjöldi húsa í byggingu, ekkert með stuðningi Viðlagasjóðs, heldur öll vegna bjargfastrar trúar á framtíð staðarins.

Forsíða Austurlands 26. janúar 1973. Skjáskot af Timarit.is


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.