Áforma 500 MW vindorkugarð í landi Klaustursels

Fyrirtækið Zephyr Iceland áformar allt að 500 MW vindmyllugarð í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði. Er það tvöfalt stærra heldur en fyrstu áætlanir um garðinn gerðu ráð fyrir.

Frá þessu er greint í umfjöllun sem Fréttablaðið birti í gær. Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr, segir fjölda fyrirtækja hafa sett sig í samband við Zephyr um samstarf um garðinn. Út frá þeirri eftirspurn hafi verið talið skynsamlegt að stækka garðinn.

Í þessa framleiðslu þarf yfir 100 vindmyllur. Ketill segir fyrirtækið vera komið með leyfi fyrir tilraunamastri til að mæla vind á svæðinu sem vonandi verði gert næsta sumar.

Í umfjöllun blaðsins er rakið að um 40 staðsetningar fyrir vindorkugarða séu til skoðunar. Samkvæmt korti sem fylgir henni vantar inn í þá útreikninga áform Orkugarða Austurlands um 350 MW vindorkugarð annars staðar á Fljótsdalsheiði. Munurinn er sá að þær vindmyllur yrðu innan marka Fljótsdalshrepps en Klausturselsgarðurinn í Múlaþingi.

Engin lög liggja fyrir um nýtingu vindorku á Íslandi en starfshópur er að störfum sem á að skila af sér tillögum eftir áramót. Ketill segir ólíklegt að öll þau verkefni sem eru á teikniborðinu verði að veruleika, eðlilegt sé að kostir séu skoðaðir á meðan beðið er eftir hvernig ríkið leggi línurnar.

Múlaþing fékk í sumar afhenta skýrslu um mögulega nýtingu vindorku innan sveitarfélagsins sem verkfræðistofan Efla vann. Fréttablaðið hefur eftir Jónínu Brynjólfsdóttur, forseta sveitarstjórnar, að beðið sé eftir skýrum lagaramma þannig sveitarfélagið geti tekið afstöðu til einstakra verkefna. Fyrr verði ekki farið í neinar skipulagsbreytingar.

„Það er enginn á því að best sé að reisa ótal risastóra vindorkugarða upp um allar heiðar á Íslandi. Það á jafnt við um okkur hér fyrir austan og annars staðar á landinu. Fyrsta skrefið er að koma upp skýrum lagaramma og gæta þess að um hann ríki breið sátt og sameiginlegur skilningur,“ segir hún.

Mynd: Landsvirkjun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.