Hlakkar að halda tónleika í gamla frystiklefanum

Stöðfirðingurinn Hilmar Garðarsson kemur fram einn með gítarinn á tónleikum í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði annað kvöld. Hilmar mun þar meðal annars spila efni sem hann hefur samið síðustu misseri.

„Ég held þetta sé í fyrsta sinn síðan 2010 sem ég kem fram einn með gítarinn á Íslandi. Ég gerði það síðast í Oulu þegar ég bjó í Finnlandi fyrir þremur árum.

Það er svolítið öðruvísi að spila fyrir Finnana. Þeir þekkja ekki Stál og hníf heldur biðja trúbadorana um Paranoid með Black Sabbath. Það er einhver húmor hjá þeim,“ segir Hilmar.

Tíu ár eru síðan hann spilaði síðast í Sköpunarmiðstöðinni. „Við pabbi (Garðar Harðar) héldum þá saman tónleika. Mér finnst æðislegt að koma þarna fram, hljómurinn í salnum er svo hlýr.

Ég vann þarna í frystihúsinu í mörg ár. Tónleikasalurinn er gamli frystiklefinn. Það er áhugavert að hafa borið þarna um haug að loðnuöskjum og setjast nú niður til að halda tónleika.“

Á efnisskránni á morgun er bæði nýtt og gamalt efni eftir Hilmar sem og eftir áhrifavalda hans. „Tónleikarnir verða í tveimur hlutum. Fyrir hlé verða bara lög eftir mig, bæði af fyrstu plötunum mínum sem og efni af næstu plötu sem ég er að vinna. Eftir hlé spila ég lög eftir tónlistarfólk sem hefur haft áhrif á mig svo sem Bob Dylan, Nick Cave og Neil Young.“

Átján ár voru í gær liðin síðan fyrsta plata Hilmars „Pleased to Leave You“ kom út. Hann er síðan á leið í hljóðver, vitaskuld Stúdíó Síló í Sköpunarmiðstöðinni, til að taka upp nýtt efni. „Ég á orðið tilbúið efni í heila plötu. Síðar á þessu ári er ég á leið með Coney Island Babies frá Norðfirði í hljóðver. Upphaflega ætluðum við að taka upp þrjú lög en mér sýnist það stefna í plötu. Mig dreymir um að hún komi út í febrúar/mars en það veltur á ýmsu. Þetta er að minnsta kosti vetrarplata, það er drungi í henni.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 á morgun, laugardag. „Tilfinningin fyrir tónleikunum er góð þótt það sé alltaf smá stress. Það hverfur aldrei, sama hve lengi maður spilar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.